27. desember 2005

Einföld jól

Þessi jól eru að mörgu leiti sérstök í huga mér. Þau liðu hratt en samt var ég að bíða eftir að þeim lyki. Kannski af því þau voru svo stutt. Kannski af því ég var á bakvakt. Það er langt síðan ég hef tekið vakt um jól. Þessi vakt leið þó hægt og hljótt, enda aðeins tveir sjúklingar sem þurftu vöktun. Var því nærri lagi að þeir væru í gjörgæslu.

Á Aðfangadag sá ég um eldamennskuna, enda ekki rjúpujól að þessu sinni. Rúpan eina hvílir enn í frystikistunni, sinni köldu gröf. Kannski var það samviskubitið sem réði því að ekki var hún höfð í forrétt. Eins og alltaf þegar ekki eru rjúpujól eldaði ég humar í massavís. Nota alltaf sömu uppskriftina, sem auðvitað er alltaf týnd fyrir hver jól og hluti af undirbúningi þeirra að leita að uppskriftinni. Hana læri ég seint og ætti etv að skrá hana niður á fleiri staði. En í stuttu máli marinera ég humarinn í 30-60 mín í samansoðnum kryddlegi, sem saman stendur af smjöri, olíu, hvítlauk (10 lauf), chilipiparflögum, paprikudufti, Dijon sinnepi, Worchester sósu, Thai fiskisósu og hvítvíni. Að þessu sinni þurrt Sancerre vín. Snarp hita svo humarinn í 2- 3mín., í leginum/sósunni rétt áður en á borð er borið. Kreisti þá sítrónusafa yfir. Þetta hefur ekki brugðist enn. Með þessu er gott að hafa brauð og salat. Því einfaldara því betra….


PS bragðaði á krækiberjasnapsinum sem ég útbjó í haust og hef reyndar verið að útbúa í allt haust. Hann virkar þrusuvel. Mikið krækiberja bragð, temmileg sætindi og milt alchol. Hann er ekki síðri en rifs- og stikillsberja snapsinn minn með tveim sólberjum sem ég lagði til í um svipað leiti.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gleðileg jól til þín og þinna héðan úr vesturheimi. Við verðum heilmikið heima á nýju ári eins og venjulega og vonandi sjáumst við. k