31. desember 2005

XO

Nú er sólarhringur síðan ég vaknaði síðast um miðja nótt, og þar áður var sólarhringur. En þá skrifaði ég ekkert. Enda ekki um margt að skrifa um miðjar nætur. Þá á maður að sofa. Helst að dreyma um bjarta framtíð og betri tíð. En dagurinn í gær var merkilegur. Flestir eru að pæla í áramótaheitum næsta árs, eða áramóta. Í dag lét ég eitt gamalt heiti rætast. Það var ekki einu sinni áramótaheiti. En samt var það ágætt.

Í morgun ætlaði ég að ná í hesta, tvo nánar tiltekið. Hóf. Hann þekkið þið öll. En hinn þekkið þið ekki. Hann heitir Greifi, enda greifalegur. Hann er móálóttur. Keyptur í eða réttarasagt eftir Laufskálaréttir sl haust. Hann var lítið taminn en úr því hefur verið bætt og nú skal hann þjálfaður. Hófur mun aðstoða við það. Þeir verða tveir í saman fyrst um sinn. Kannski koma fleiri síðar. Hinir. Glói, Flygill, Skuld og Hálfmáni verða úti áfram. Þeir eru á gjöf. Og svona í framhjáhlaupi þá var ég næstum búinn að kaupa graðhest í kvöld. Svartan með hvítan leista. Heitir Sokki. Til stendur að gelda hann. Ég finn til með honum. Það er eitthvað við graðhesta. Kannski bara greddan. En um hana ætla ég ekki að ræða í dag. En hvort mér tekst að bjarga greddunni hans Sokka mun ráðast á allra næstu dögum. Það verður framhaldssagan, ef til er framhaldslíf. En sjáið þið mig ekki í anda ríðandi um héruð á biksvörtum, glansandi graðhesti, sveittum og frísandi með faxið flaxandi. Ef það ekki ærir....

En semsagt í morgun átti að ná í hestana, en ekki eru allar ferðir til fjár (eða hesta!). Það sem meira var að synir mínir tveir sem eru meira fyrir innisport og sund voru tilbúnir galvaskir í slaginn og ætluðu að hjálpa öldruðum föður sínum að ná í hrossin. Fyrsta ferð okkar feðgja, þ.e.a.s. hestaferð okkar feðga þó ekki stæði til aðfara á bak. Þetta er samt áfangasigur. En eins og segir i annari sögu (án tilvitnunar) að ekkert rúm var fyrir þá í hestakerrum. Fórum við stað úr stað. Frá leigu til leigu, en engar kerru fengum. Þvi komust við feðgarnir ekki i hestaferð. Sem var eins gott því hestamenn tjáðu mér siðar um daginn að allt væri að verða vitlaust í hesthúsum borgarinnar, svo agalegt væri sprengiregnið. Við sögðum því, fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Þetta gætu margir tekið sér í munn þessa daganna. Þessa síðustu og verstu daga.

Nú var liðið að hádegi. Svengd hrjáir ístrubelgi oftar en aðra segir máltækið. Eftir að hafa sveimað um bæinn. Troðið kvittunum upp á sjúkrasjóði vegna krankleika ársins, tannviðgerða, og heilsuræktar sem er meiri í orði en á borði. Eða réttara sagt of mikið á borði eða borðið of mikið. Því í dag varð ég að víkka beltið um eitt gat. Næstum allur ávinningur fyrri hluta ársins farin til andskotanst. Enda er mittismál mitt barometer á sálarástandið. Þetta heitir tröstespise eða angistarát. Eða kannski bara maturinn alltof góður heima hjá mér. Alltof reglulegar máltíðir og of mikið af heilsusamlegum heimalöguðum mat, sem eldaður er af nostursemi og tilbúinn á matmálstímum.

Til að bæta úr þessu og slá á angistina og söknuðinn og hestamennsku í handaskolum hringdi ég í einn aldavin minn. Þeir eru reyndar ekki margir sem vilja tala við mig núna. En þó leynist þar einn, og etv annar. Við fórum í göngutúr. Lögðum í miðbænum, 101 og gengum um Austurstræti, -þó ekki í rauðum skóm. Niður á Lækjartorg, eða upp. Pósthússtræti og Tryggvagötu. Þar settumst við inn hjá Sægreifanum. Það er sko almennilegur staður. Besti matssölustaður borgarinnar. Fengum þar hina landsfrægu humarsúpu. Allt fremur primitivt þar á bæ. Langborð sitjum við við, enda er það úr við og við það tunnur sem sæti. Vertinn með síldarsvuntu og bláa hanska ber fram súpuna í frauðplastskál og plastskeið. Ég kom í hestagallanum. Þó ekki reiðbuxum og leðurskálmum a.m. p.ó.h. heldur skítugum gallabuxum og úlpuræxni. Var dressed for the occasion eins og sagt er. En viti menn. Þessar hendur í bláu plasthönskunum hafði aldeilis hrært saman almennilega súpu. Einhver sú albesta súpa, eða le sup kom uppúr frauðplastmálinu og var sötruð úr plastskeiðinni af áfergju, sem aðeins sá sem prófað hefur getur skilið til fulls. Svo var ábót á boðstólum. Hefðum getað setið að súpusumbli allan daginn. Töldum þó ráðlegast að forða okkur og vömbum okkar þegar dýrindis ilmur kom frá útigrillinu þar sem vertinn var að matbúa hrefnu og skötusel á teini.

Kæru vinir. Legg til að þið strengið þess heit að fara á Sjávargreifann á nýju ári og borða landsins bestu humarsúpu úr frauðplastmáli með plastskeið. Kostar aðeins 650 kr. Gott fyrir þá sem eru á budgetti, eða hafa straujað kortið ofmikið þessi jólin. En ég? Já ég efndi þetta heiti að fara á Sægreifann áður en árið væri liðið og stóð við það.

Svo leið að næst síðasta kvöldi ársins. Ég dró fram Camus XO flöskuna mína, -á reyndar tvær. Gat ekki slitið mig frá graðhestinum honum Sokka. Var kominn með hann á heilann. Þetta yrði að ígrunda og helst undir áhrifum. Því nær sem ég íhugaði málið því nær varð ég þeirri staðföstu ákvörðun, án nokkurs valkvíða að mitt hlutskipti lægi í því að eiga graðhest. Jafnvel þó ég léti gelda hann fljótlega. Eitthvað var rökhugsun farin að slævast. Ákvað næst að athuga hvort rauðvín bætti eitthvað þar um. En þá kom hið óvænta. Gestir. Þeir eru sjaldséðir hér á bæ. Yfirleitt eru það aðeins sölumenn og menn að lesa af mælum sem hringja hjá mér. Stundum þó vandræðafólk að leita að nágranna mínum. En í þetta sinn var þar á ferð vinur minn nokkur og hestamaður. Hann var enn i útgallanaum eins og við köllum það. Svona algalla, bláum frá toppi til táar loðfóðraður enda verið í allan daga að byggja við hesthúsið sitt. Konan hans hafði náð í hann rallhálfan og sundrað góðri gleði hestamanna, án nokkura hesta og var áleið með hann heim góðglaðan, þegar hann tjáði henni að hann ætti ýmislegt ósagt við mig á þessu ári. Varð úr því hin besta skemmtun. Því inn kominn reyndist hann alltof lítið drukkin og sá ég þar hin ágætasta drykkjufélaga. Opnaði því þriðju rauðvinsflöskuna og til að hann drykki ekki á fastandi maga, dróg ég fram, að ósk konu hans, sem vildi bara Fjörmjólk, hrátt tvíreykt taðhangikjöt af sauði norðlenskum. Þetta fengu þau með rúgbrauði og vænni smjörklípu. Hann við rauðvíni og hún fjörmjólk. Fór nú að hitna hjá vini mínum sem fór úr útigallanum, -enda til stofu boðið að heldri manna sið. Innan klæða var hann bara í nærklæðum. Síðri blárri brók sem hann batt uppi með grænyrjóttum snærisspotta, heldur haldlitlum að sjá. Varð nú mikil stemming fyrir innaklæðaburði þessa vinar míns og skálað innilega í Camus XO, enda rauðvín á þrotum. En eins og um allar góðar sögur, þá líkur henni hér. Enda þá búið að reyna þriðja árið í röð að telja mér trú um að á næsta ári riði ég norður Sprengisand. En ef þið haldið að þetta hafi verið svallveisla þá er það misskilningur.

Er nema von að það sé erfitt að sofa.

28. desember 2005

Morgunkveðja

Góðan daginn, fagra myllumær.
Hún hörfar undan hallast fjær
og augun ei mér svara.
Ef angrar þig mín kveðja, kær,
ef truflað þig mig tillit fær
ég tef ei meir - skal fara.

Er spölkorn hef ég fært mig frá,
ég horfi glugga hennar á
við hlið á vegi förnum.
Ó, lát mig hárið ljósa sjá
og einnig þína björtu brá
með bláum morgunstjörnum!

Þér enn er höfugt, yndið frítt.
Ó, döggvum hlaðna blómið blítt,
er böl að sólar skini?
Hvort var svo draumþung nóttin nú
að lútir, tárist, lokist þú
sem leidd í brott frá vini?

Ei dvel þú meir á draumaslóð
því senn er bjart og sumarljóð
hér sungin, yndislega.
Nú fyllist loft af fuglasöng
og hrópað er í hjartans þröng
af heitri ást og trega.


Var að hlusta á Schubert í morgun á leiðinni í vinnuna. Malarstúlkan fagra hljómar undursamlega í þýðingu Guðmundar Hansen Friðrikssonar. Ákvað að deila ljóðinu með ykkur.

27. desember 2005

Arachibutyrophobia

er sjúkleg hræðsla við að hnetusmjör festist efst í gómnum.

PS Abraham Lincoln vann forsetakosningar 1860 eða 24 árum eftir að hann fékk taugaáfall. Hann hafði þá tapað 8 kosningum um ýmis embætti.

Fánýtur

er ærir. Þetta gæti verið máltæki, jafnvel málsháttur. Það hefur verið rifjað upp að ærir og hans kumpánar eru lítt liðtækir til inniverka annara en þeirra sem teljast til kerlingaverka. Nú hefur okkur verið sýndur æðri sómi og boðin innganga í The Useless Information Society. Er nokkur upphefð í því. Því fylgdi bókin Fánýtur fróðleikur sem er betri og gagnlegri lesning en flest annað sem selt var í bókaflóðinu og öllu skárra en það sem finnst á þessari heimasíðu. Þannig getur hún orðið uppspretta tilvitnanna, sem annars hefðu ekki birst hér. Deilum við fyrstu tilvitnunni í þessari bók með ykkur lesendur góðir.:
"Abraham Lincoln fékk taugaáfall árið 1836".

Ærir þarf því ekki að skammast sín lengur fyrir sín nervusbreikdáns á undanförnum árum. Hann gæti jafnvel orðið president of the júnæted steits eða á bessastöðum. Þannig sannast að fánýtur fróðleikur er betri en engin og jafnvel uppbyggilegur og mörgum hvatning. Þarf ég að segja meira....

PS bókin var möndlugjöfin í ár sem Ærir fékk ekki, enda ekki fengið hana í tvo áratugi, er það með tölfræðilegum ólíkindum og fánýtur fróðleikur

Einföld jól

Þessi jól eru að mörgu leiti sérstök í huga mér. Þau liðu hratt en samt var ég að bíða eftir að þeim lyki. Kannski af því þau voru svo stutt. Kannski af því ég var á bakvakt. Það er langt síðan ég hef tekið vakt um jól. Þessi vakt leið þó hægt og hljótt, enda aðeins tveir sjúklingar sem þurftu vöktun. Var því nærri lagi að þeir væru í gjörgæslu.

Á Aðfangadag sá ég um eldamennskuna, enda ekki rjúpujól að þessu sinni. Rúpan eina hvílir enn í frystikistunni, sinni köldu gröf. Kannski var það samviskubitið sem réði því að ekki var hún höfð í forrétt. Eins og alltaf þegar ekki eru rjúpujól eldaði ég humar í massavís. Nota alltaf sömu uppskriftina, sem auðvitað er alltaf týnd fyrir hver jól og hluti af undirbúningi þeirra að leita að uppskriftinni. Hana læri ég seint og ætti etv að skrá hana niður á fleiri staði. En í stuttu máli marinera ég humarinn í 30-60 mín í samansoðnum kryddlegi, sem saman stendur af smjöri, olíu, hvítlauk (10 lauf), chilipiparflögum, paprikudufti, Dijon sinnepi, Worchester sósu, Thai fiskisósu og hvítvíni. Að þessu sinni þurrt Sancerre vín. Snarp hita svo humarinn í 2- 3mín., í leginum/sósunni rétt áður en á borð er borið. Kreisti þá sítrónusafa yfir. Þetta hefur ekki brugðist enn. Með þessu er gott að hafa brauð og salat. Því einfaldara því betra….


PS bragðaði á krækiberjasnapsinum sem ég útbjó í haust og hef reyndar verið að útbúa í allt haust. Hann virkar þrusuvel. Mikið krækiberja bragð, temmileg sætindi og milt alchol. Hann er ekki síðri en rifs- og stikillsberja snapsinn minn með tveim sólberjum sem ég lagði til í um svipað leiti.

26. desember 2005

Hugsað til hestanna minna

Ásareið eftir Grím Thomsen:

Jóreyk sé ég víða vega
velta fram um himinskaut-
norðurljósa skærast skraut-
Óðinn ríður ákaflega
endilanga vetrarbraut.

Sópar himinn síðum feldi
Sigfaðir með reiddan geir,
hrafnar elta og úlfar tveir,
vígabrandar vígja eldi
veginn þann, sem fara þeir.

Sleipnir tungla treður krapa,
teygir hann sig af meginþrótt,
fætur ber hann átta ótt,
stjörnur undan hófum hrapa
hart og títt um kalda nótt.

25. desember 2005

Af matarveislum

Sighvatur sat heima á Grund um sumarið. Hann dreymdi, að hann þóttist sitja í stofu í rúmi sínu, þótti honum stofan alskipuð, og stóðu borð um alla stofu og vist á, trapezia á gólfi og skapker. Þá þótti honum ganga inn hestur rauður, er hann átti, er Fölski hét. Hann gekk fyrir Sighvat og spurði, hví hann byði honum eigi til öls og matar, og kveðst svangur og þyrstur. Síðan tók hann til og át diskinn og matinn og tók hvað við að öðru, það er var á borðinu.
(Sturlungasaga).

Hafi bróðir þakkir fyrir góða gjöf og verður fleira úr henni birt, þó síðar verði.

23. desember 2005

22. desember 2005

Svo tjáði Huxy:

ég á eftir að:
kaupa jólagjafir,
kaupa jólatré,
skreyta jólatré,
skrifa jólakortin,
senda öll jólakortin,
útbúa jólaísinn,
ákveða jólamatinn,
athuga með jólabúninginn,
þrífa heimilið og stigaganginn,
gera reglulega fínt og fallegt heima,

svo mælti hún gær og gildir enn í dag hjá mér....
Hvar eruð þið jól?

21. desember 2005

Falskur Haggis

Fór í matsalinn í hádeginu. Á miðvikudögum er alltaf grænmetisréttur. Hreinsar vel út innvolsið í manni vikulega. Í dag var nokkuð sem líktist því sem við hefðum kallað í Skotlandi, smalaböku, shephards pie. Reyndar var það baunabaka einhverskonar eða byggbaka með kartöflumús kryddaðri að ofan. Með þessu var svo meira grænmeti. En viti menn, þetta var ágætlega kryddað og pipar ekki sparaður. Á bragðið og svo með bygginu í, smakkaðist þetta eins og skoskur Haggis og var svipað áferðar á góm og tungu. Það vakti upp ágætar minningar, sennilga framheila reynsla? En Haggis er lítið dýr sem býr i hálöndu Skotlands og er annar fótur þess styttri en hinn. Þannig hleypur það alltaf sama hringinn í kringum skosku hæðirnar. Er matreitt í keppum eins og við gerum slátur. En í því mikið af kjöti og byggi og pipar. Skotar heiðra Haggis á Burns supper, til heiður skáldinu Robbie Burns. Þá er Haggis ávarpað með ljóði, leikið á sekkjapípur, dansað í pilsum (ekki pylsum) og Haggis rist upp með miklum kuta. Sem sagt í hádeginu í dag hljómuðu sekkjapípur í eyrum mínum og ég borðaði falskan Haggis. Ofskynjanir. Nú er ég endanlega orðinn galinn og það staðfestist hér með. En kokkurinn hér kannað elda grænmetis Haggis.

20. desember 2005

Þórarinn Björnsson - aldarminning

í Morgunblaðið ritar Tryggvi Gíslason, fv. skólameistari um forvera sinn Þórarinn Björnsson. Þar segir m.a. "..var virtur fyrir gáfur, mannskilning og hlýju. Á stundum virtist þennan gáfaða mann bresta dómgreind og hann tapa áttum. Einkum var það í viðskiptum við breyska nemendur sem brutu reglur skólans eða urðu skólanum til vansæmdar, endar var Þórarinn viðkvæmur og örgeðja..."

meira um þann ágæta mann síðar.

14. desember 2005

Úr þagnargildi

Eins og ég hef minnst á áður fórum við vinnufélagar í ferð nokkra fyrir skemmstu. Hún hefur að mestu legið í þagnargildi. Þó féllu þar ýmis gullkorn, sem ég er að rekast á. Fann ámeðal kvíttana tvo miða sem höfðu laumast til mín eitt kvöldið. Þar hafði skrifað Reyðfirðingurinn og þilskipasérfræðingurinn vísur tvær og mun til sannsvegar vera fært að þær eru frumraun (ekki raunir) hans á þessu sviði. Hann býr yfir miklu pótensíali eins og sjá má á eftirfarandi:

Raumaþingið reyndist mér,
raun og pína.
En bræður tveir sem betur fer
bæta líðan mína.

og tilbrigði hans við sama stef:

Raumaþingið reyndist mér,
raun hin mesta.
Buffalókjötið best það er,
bætir líðan flesta.

(IK)..

læt þetta duga í dag.

10. desember 2005

Pastel

Datt inn í tofrasveppinn a ný og svíf á netid i skamma stund. Hef verid ad ihuga stoduna. I raesinu i gaer. Er heldur i skarra standi i dag. Keypti í dag pastel liti og blokk. Geng med hana um borgina. Kannski dreg ég hana upp á naesta kaffihúsi. Thad er eitthvad svo heillandi vid hvítan flotinn. Ósnertan. Óflekkadur pappírinn. Hver er sinnar gaefu smidur, eda myndasmidur. Er thad ekki líka vid haefi ad vera í raesinu ad taka upp á thví ad leika listamannsspíru. Kannski eyrad fjúki í brjálsemininni. Thad hefur víst komid fyrir málara í thessu landi.

9. desember 2005

I am sterdam

Thá er ég enn á ný kominn út fyrir landsteinanna. Ferdin byrjadi ekki vel. Maetti án allra ferdaskjala í Leifsstod, svei mér thá ef thetta kallar ekki ad farid se ad forlast og halla undan faeti. Mikil neyd, panic og pulshradi urdu yfirthyrmandi. Fekk utgefin nyjan mida og med okuskirtein eitt i vasanum lagdi af stad i langferd. En eiginkonan bjargaði malinu a sidustu stundu, eins og svo oft áður þegar ég klúðra málum, med nyju hradameti ur Selasnum i Leifstod. Lagði sig í lifshaettu. Henni er sko ekki fysjað saman. Fekk fylgd ut ur flugstodinn med oryggisvordum a badaboga til ad na i skjol og pappira, naudsynlega fyrir framgang og oryggi rikisins. Sidan hlaup ut i flugvel, thakkadi fyrir timana i Laugum. Fekk illt augnagot fra freyjum loftsins um ad eg hefdi tafid brottfor.

Fekk svo herbergi a Symphony Hotel Paganinni vid Stadhouderskade. Hljómar vel en er kakkalakkakofi. Herbergid hafdi undarlegan anga. Ekki sursaetan eins og reykt surhey heldur ýldufýlu. Kvartadi en stulkan brosti og sagdist ekkert geta gert, fullbokad en a morgun fengi eg nytt herbergi. Thetta hlyti ad ganga yfir. Illa lyktandi fyrri gestur eda eitthvad i tha lund. Fór upp og lagdi mig. Ekki beint hrifinn. Rumskadi af og til og ef nef snéri ut úr ruminu vard manni half oglatt. For svo a faetur. Ja faetur. Vard blautur. Allt a floti. Ahh. Tharna kom skyringin. Farnar pípur. Teppid rennblautt. Ildufýlan en verri. Kvartadi á ný. Enn bent á ad hotelid fullt. Gaeti fengid nytt a morgun. Bara bita á jaxlinn og setja klemmu á nefid. Bad um ad vera fluttur a annad hotel. Tha fannst nýtt herbergi. Reyndar a nedri haedum. Tók thví. Thar voru gólf thurr og engin fýla. Lét mer thad duga, en fór ad sofa med hálfum huga thvi vatn leitar jú nidur. Fór thvi ad rokraeda vid stúlkuna í afgreidsluna um náttúrulogmál og áhyggjur mína af thvi ad vakna í nott med vatn lekandi í dropatali á andlitid eda jafnvel foss. Hun hafdi ekki áhyggjur af thvi. Vandinn á fjórdu haed gamalthekktur!!!! Ef einhver faeri i sturtu, yfirfylltist frárennslid og vatnid ur skolpinu flaeddi út úr!!!! Hmm!!! Ekki beint traustvekjandi. Ask... krimmar. hugsadi eg. Gerdi mér svo grein fyrir ad thratt fyrir ad hafa verid a 3 haed var ég i raesinu. Kannski daemigert fyrir líf mitt. Kannski er ég bara í raesinu alveg sama á hvada haed eg er. En thratt fyrir thad var ég fluttur enn nedar. Hvar endar thetta...... Üt fra thessu lygndi ég aftur augunum. Tród eyrnatoppunum á sinn stad og kvad í hljódi af gefnu tilfefni

I naesta herbergi stynur stúlka,
stodugt a gud sinn kallar.
Unun hvernig trúna túlka
telpur í rúmi snjallar.

med kvedju frá internetkaffinu> The Magic Mushroom.

6. desember 2005

Deux amis

Hlátur og glaðværð geta fært birtu í skammdegið. Kom heim í gærkveldi og heyrði hlátrasköll úr sjónvarpsherberginu. Unga parið varð að horfa á myndina Quentin og Rugby með JERARD DEPARDIEUX og JEAN RENO. Lýsir sérstöku vinasambandi. Á íslensku mun hún heita Grjótharðir. Mæli með henni. Svo er ekki verra að hún er á frönsku :-)

1. desember 2005

Á suðrænni strönd



Sögur engar segja viljum
af sveinunum þeim
Er berir á ströndum stikkluðu
og studdust svo heim