25. október 2005

Haust

Komið er haust
og kaldir vindar,
í kotinu eldurinn þrotinn.
Frosið er vatnið
og freðin jörðin,
í fárviðri gróðurinn brotinn.

Það nístir að beini,
er næðir um glugga,
hver mun á kvöldin
kærasta vin minn hugga.

Skefur af þekju
og skaflarnir myndast
skjól er ei lengur að hafa.
Bylurinn lemur
og bálviðrið geysist
bundið í hlekki og klafa.

Enn nístir að beini
það næðir um glugga,
hvað læðist á kvöldin
kalið í dimmum skugga.

Króknar í rökkri
og kvikan er frosin
hvenær fer veðrið að hægja.
Augun þau stara
og stara út í bláinn
steinrunnin ógninni bægja.

Það nístir að beini,
það næðir um glugga,
hver mun á kvöldin
kærasta vininn minn hugga.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sýnist vera kúrvatorísk reðurólga með miskaldri melankólíu hér á ferð. Slíka má lækna með "sveitaferð".
Halur

Nafnlaus sagði...

Kristján Jónsson kvað ,
kvalinn,dapur hrjáður.
Haustsins harðann stað,
hann þekkti frá því áður.

Fullur fjalla orti,
skáldið furðu sögur.
Mat hann mikið skorti,
mælti þar um bögur.

Nú eru nýir tímar
nægilegt að éta
Kristján kaldi rímar
ekki við karla sem geta.

Bjarta má bæði líta,
breiða til allra hliða.
Islands glaða ýta,
íturvaxna, riða.

Góð eru guma kjör
glöðu á Ísalandi
Í fjármálum er fjör
og FL Group í standi.

Því er þá svona ort,
þungum í kulda og trekki?
Um sálar og andans skort,
og sólin er hér ekki.

Reyndu nú Reynir minn
að ráða í lífsins gátu,
Horfa svo hugrænt inn
í hausinn á sætri tátu.

Það lyft gæti þér í leik
á lífsins iðgræna velli
þó standir með allt í steik
á köldu og hálu svelli.

Nafnlaus sagði...

Resept mun ef til vill hrellda sálina hugga:
Horfðu út um tilverugluggan og þar muntu sjá,
Konseptið lífsins híma í lævísum skugga,
ljóðskáld það grípur og hæstu hæðum mun ná.