14. október 2005

Eldhúsrústir

Lagði eldhúsið í rúst í gærkveldi, rétt einu sinni enn. Var í vandræðum með kvöldverðinn, því hann verð ég að sjá um. Fór í Nóatún og klóraði mér í kollinum og horfði á steikur og skyndibita en það er ekki á dagskrá. Bara hollustufæða á minni vakt. Fann lifur og ákvað að spreyta mig á henni. Á hverju hausti reyni ég að finna upp nýjan lifrarrétt, þó ég sé alinn upp á vel og gegnusteiktri lifur í brúnni sósu með kartöflumús. Þegar ég fór að búa sjálfstætt kynntist ég nýrri lifrareldamennsku sem var snöggsteiking með eplum og grænmeti sem var hið ágætasta fóður. Síðan hef ég reynt að bæta um betur og koma mínum á óvart með ótrúlegri útsjónarsemi. Á hverju hausti get ég eitt löngum stundum í að spá í þetta og spekúlera, en nú varð þetta til spontant og áreynslulaust.

Í skyndi varð til nýr matseðill:
Lifur í Hoi Sin sósu og wok steiktri grænmetisblöndu.
og svo meira grænmeti bakað í ofni.
Allt borið fram með tælenskum núðluhnykkli.

En svo var að fara heim og reyna að improvisera eitthvað úr hugmyndinni. Byrjaði á að setja grænmetið ofnin, sætar kartöflur, sveppir og rósakálshnúðar með rauðri paprikku ásamt kryddi e. smekk. Bakað í hátt í klukkutíma eða eftir smekk. Þetta var auðvelt og á allra færi, líka mínu.

Svo hófst undirbúningur að Hoi Sin lifrarsteik. Lifrina skar ég í þunna strimla og marineraði í sósunni í ca 45 mín. Grænmetið, verð ég að viðurkenna keypti ég niðursneitt (wokblanda frá náttúru) en má annars sneiða niður það sem til er s.s. gulrætur, hvítkál, papriku, graslauk ofl.

Ég snarphitaði Wok pönnu með smávægis iso4 olíu og steikti í 2 mín við háan hita. Lagði á skál á meðan ég útbjó lifrina í næsta skref. Bundinn í klafa vanans fannst mér ég yrði að velta strimlunum marineruðu í hveiti, en þá hófust vandræði. Hoi sin sósan er nefnilega dálítið klístur og í samblandi við hveiti er þetta afar viðloðandi og í mínum höndum eða réttara sagt í og á mínum höndum kárnaði gamanið því fljótlega hafði hveitið og klístrið komið víða við í eldhúsinu.
Úr varð smá krísuástand sem ég var eiginlega feginn að engin upplifði með mér.

Á meðan þessu stóð hlustaði ég á tónlist af ipod tæki sonarins, en þar inni eru óteljandi fjöldi laga. Hlustaði á nirvana, cat stevens og steig nokkur vel valin spor með raggabjarna en þá slettist hveitiklístrið meir, svo ekki er mælt með því sérstaklega við þessa matargerð. Dásamlegt tæki þessi ipod græja. Ja, það sem tækninni fleygir fram.

En mín biðu meiri átök og ögrandi verkefni í eldamennsku. Nú með hoisins á lifrinni og talsvert hveiti í fötunum byrjaði ég steikja í wokpottinum. Eiginlega var þetta svo heit olía að jaðraði við djúpsteikingu. Steikti stutta stund og fékk stökka lifrarstrimla. Með þessu sauð ég svo tælenskar núðlur en pakkinn kostar aðeins 59 kr í nóatúni. Þær urðuþó í minu eldhúsi, þrátt fyrir skamman eldunartíma að einhverskonar hnykkli sem ekki var á allra færi að greiða í sundur.

Við angurværa tóna catstevenes, byrjaði ég svo að ganga frá og þrífa áður en aðrir heimilismeðlimir laumuðust heimí eldhúsið, sem þeir gerðu á réttum tíma enda nef þeirra ótrúlega vel stillt á ilm sem þaðan berst. Þeir fengu því að reyna lifur í hoisin sósu í fyrsta sinn, -ever. Þau eru svo vel upp alin að þau hrósa alltaf tilraunum mínum í eldhúsinu ef þau þurfa ekki að þrífa eftir mig svo ég reyni að gera það sjálfur. Hvað gerir maður ekki fyrir hrósið.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Svona fusion-taktar í eldhúsinu fylla mann sannarlega eldmóði og andagift. Maður ætti að gefa lifrinni meiri gaum, ekki bara manns eigin. En er þetta ekki fullt af kólesteróli?