18. september 2006

Maríufiskur

Í seðlasöfnum þeim sem safnað var til á Orðabók Háskólans um áratuga skeið eru mjög fáar heimildir um maríulaxinn og engin sem skýrir nafnið eða hvort einhver siður var að baki. Aftur á móti er orðið maríufiskur vel þekkt orð og heimildir til um það að minnsta kosti frá 17. öld.

Maríufiskurinn var fyrsti fiskur sem sjómaður veiddi á ævinni. Skyldi sá sem veiddi fiskinn gefa hann fátækustu (sumir segja elstu) konunni í verstöðinni þegar komið var í land. Ef maríufiskur unglings var góðfiskur, það er þorskur, ýsa eða lúða, var spáð vel fyrir honum og framtíð hans á sjónum.

Þennan sið má rekja aftur til kaþólskrar trúar og var maríufiskurinn þá eins konar heitfiskur. Heitið var á Maríu mey til fiskiheilla og var henni gefinn fyrsti fiskurinn.

Líklegast er að heitið maríufiskur hafi færst yfir á laxveiðar og fyrsti laxinn sem veiðimaður fékk í veiðiferð þannig verið nefndur maríulax.

af Vísindavefnum

Engin ummæli: