6. september 2006

Berið mig vindar

Fölnar um hlíðar, færist haustið að
fálæti sólar vex með hverjum degi,
farfuglar þöglir hópast himinvegi
berið mig vindar, burt úr þessum stað.

Blómjurtin fagra lögst er löngu nár,
lífsviskan öll er þjökuð dvalasvefni,
hvarvetna þrotin gleði og yndisefni.
Liðið er enn til loka sólskinsár.

Kalt er mér löngum, kreppir hjarta að
kvíði af sterkum grun um vetur langan
en hvað ég þrái sól og sumarangan!
Berið mig vindar, burt úr þessum stað.


Ljóð e: Braga Sigurjónsson.

Engin ummæli: