Ég geng í myrkri, gatan er mér týnd,
sú gata er mér sem besta leið var sýnd.
Mér þótti einsýn þessi flýtisferð
og fannst hún mundi verða á svipstund gerð.
En fyrr á þrek mitt gekk en glöggt mér var,
og grjótið hvasst mig sárt í iljar skar.
Það setti að huga mínum hik og geig
með hverju spori sem ég lengra steig.
Og þegar leiðin reis í fang, ég fann
að fast á hæla mína efinn rann
og sífurrómi síspyrjandi var,
hvort sæi ég nokkrar götur liggja þar.
Á miðju fjalli hefur nótt mér náð,
ég næsta fáu get um lokin spáð,
en efinn hefur villt mig svo á veg,
að viljalaus í spor hans þræði ég.
Ljóð: Bragi Sigurjónsson
Við þetta ljóð Braga og einnig það fyrra sem birt var hér hefur Kormákur Bragason samið ágætislög, sem South River Band hafa gefið út.
1 ummæli:
Kormákur er sonur Braga
kv.
bróðir
Skrifa ummæli