

Þetta er í fyrsta sinn sem ég fer í smalamennsku frá því ég þurfti að smala fyrir systur mína og Svein mág á Vatnsenda forðum. Þá var maður látinn hlaupa við fót, en nú notaði maður tæknina og fór á hestbaki. Þetta voru fyrstur göngur okkar Hófs og ég verð að segja að í upphafi þótti honum húsbóndinn heldur skrýtinn og efaðist um öll fyrirmæli. Reyndi ítrekað að leiða mig af villu míns vegar. Svo þegar ég fór að hóa á skjáturnar þá taldi hann víst að ég væri orðinn villtur og væri að kallast á við félaga mína og vildi hann hjálpa.

Í hvert sinn sem ég hóaði þá hneggjaði hann hátt og snjallt. Þannig fórum við um alla mýrina við Geldingalæk og langt inní Hekluhraun. Svo áttaði hann sig á því að ég væri að hóa á kindurnar og þegar við fundum nýjar rollur þá var orðinn iðulega fyrri til og hneggjaði á þær til að stugga við þeim. Hann var fljótur að læra út á hvað smalamennskan gekk. Varð ótrúlega snúningalipur og snarpur. Þegar við komum svo að túnum varð hann ókyrr og og við þeyttumst um á stökki, upp og niður hæðir og hóla á mikilli ferð. Hann var í essinu sínu. Kunni sér varla hóf.

Heima á Kaldbak biðu okkar kræsingar, borð svignuðu undan veitingu. Hnallþórum, pönnukökkum og öðru munngæti. Þurfti lítið að grípa til skrínukostsins sem samanstóð af sviðakjömmum, harðfiski, soðnu brauði og hangikjeti.

Smalar komnir heim með safnið. Maður er manns gaman.

Þar biðu fagnandi ungir sem aldnir í miklum spenningi. Hér er Úlfur Torfason Finnsson með afa sínum.
Kom heim sæll og endurnærður eftir helgina en átti eftir að verða enn sælli.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli