3. janúar 2006

Af sendingum fjölkunnugs bróður

Forfeður mínir og okkar bræðra voru þekktir fyrir sendingar. Misgóðar. Þannig var Jón "Glói" Arnljótsson forfaðir okkar þekktur fyrir ýmsar sendingar og visku umfram aðra menn. Hér kemur ættartalan:
Jón "Glói" Arnljótsson um 1730
Ingibjörg Jónsdóttir 1767 - 1849
Sigríður Magnúsdóttir 1795 - 1862
Jórunn Pálsdóttir 1827 - 1910
Guðrún "yngri" Magnúsdóttir 1850 - 1922
Guðbjörn Bjarnason 1880 - 1952
Arngrímur Guðbjörnsson 1920 - 1983


Nokkrar þjóðsögur hafa verið skráðar um Jón Glóa og voru afkomendur hans, kallaðir Glóar og þóttu fjölkunnandi eins og karlinn. Hér er ein úr þjóðsögum Jóns Árnasonar.

Jón glói vekur upp kellingu

Á dögum Halldórs Jakobssonar sýslumanns [Halldór Jakobsson (1735-1810) var sýslumaður í Strandasýslu 1757-1788] er bjó að Felli í Kollafirði í Strandasýslu bjó maður á Efrafelli Jón að nafni og lék orðrómur á að hann væri kuklsamur. Einu sinni áttu þeir tal saman Halldór sýslumaður og hann því viðvíkjandi að vekja upp. Jón lét það í veðri vaka að hann gæti vakið upp ef hann vildi. Halldór sagðist ekki trúa því að hann gæti það nema hann sæi til hans á meðan og biður hann nú að vekja upp eða jafnvel kaupir það af honum af forvitni til að sjá aðferð hans. Þá lætur Jón til leiðast að gjöra það fyrir hann og segir Halldóri hann verði þá að vera út í kirkjugarðinum á meðan. Halldór sagðist ekki hafa huga til og sagðist ætla að standa við stofugluggann og horfa út um hann þar andspænis á móti garðinum sem Jón ætlaði að vekja upp. Nú gengur Jón út í kirkjugarðinn að leiði einu og slær sprota sínum á það og spyr hvör þar sé undir. Grafarbúinn anzaði og sagðist Magnús heitið hafa. Jón spyr hvað hann hefði orðið gamall. „Átján vetra," sagði grafarbúinn. „Varstu nokkur maður fyrir þér?" sagði Jón. „Efnilegur var ég kallaður á mínum aldri," sagði grafarbúinn. „Ligg þú þá kyrr!" sagði Jón. Þá gengur Jón að öðru leiði og spyr hvör þar sé undir. Honum var anzað: „Ég hét Þuríður." Jón spyr hvað hún hefði orðið gömul. „Ég komst undir tvítugs aldur," sagði hún. „Varst þú nokkuð fyrir þér?" sagði Jón. „Heldur var ég kölluð það," segir hún. „Ligg þú þá kyrr!" sagði Jón. Síðan gengur Jón að þriðja leiðinu og slær sprota sínum á það og spyr hvör þar liggi undir. Honum var anzað: „Ég hét Guðrún." Jón spyr hana hvört hún hafi dáið á ungum aldri. Hún sagðist hafa verið komin á sjötigsaldur. Jón spyr hana hvört hún hafi verið mikil fyrir sér í lífinu. Kerling sagðist heldur hafa verið aumingi og hölt meiri part ævi sinnar. „Þá skalt þú upp!" sagði Jón. Og að því búnu opnaðist gröfin og kerling kemur upp úr gröfinni og ræðst á Jón, en hann tekur á móti. Glíma þau nokkura stund unz kerling fellur fyrir Jóni; sleikir hann þá upp á henni vitin. Kerling spyr hann að hvað hún eigi að vinna. „Ekki neitt," segir Jón, „nema fara niður í gröfina aftur." Þá sýndist Halldóri kerling ófrýn verða og eygð illa og aldrei sagðist hann slíka sýn séð hafa þá hún varð nauðug niður að fara og erindislaus. Svo bjó Jón um leiðið eftir því sem hann kunni.

Þetta hafði verið seint um haustið. En þegar kom fram á veturinn var það einn dag að Jón á Efrafelli stóð hjá kindum sínum sem oftar. Það var heldur kalt veður um daginn og frost mikið um kvöldið. Kom Jón heim með kindurnar í rökkrinu. Þegar hann var búinn að láta inn kindurnar gengur hann inn í bæinn og sezt upp á rúm sitt. En eldurinn hafði dáið um daginn hjá konu hans og skauzt hún ofan að Felli að sækja eldinn um kvöldið um sama leyti og Jón kom heim með kindurnar eða var kominn inn í bæinn. Enginn var eftir í bænum hjá Jóni nema stúlka á fimmta árinu sem hét Ingibjörg, dóttir þeirra, því fólkið var ekki fleira. En á meðan kona Jóns var að sækja eldinn sýndist barninu gömul kona koma upp á loftið og sýndist hún vera í svartri hempu og gangi fram í fangið á Jóni og leggja hann aftur á bak í rúmið og taka fyrir hálsinn á honum svo korraði í honum. En þegar konan kom heim sá hún að bóndi hennar var dauður, en barnið sagði frá hvað því hefði sýnzt. Meðan verið var að smíða um Jón og hann lá á börunum sá Halldór Jakobsson frá Felli að kotið Efrafell var krökkt af hröfnum svo valla sá í það. Eins sá hann fjölda hrafna fylgjast með líkfylgd Jóns til legstaðarins; en þessa hrafna gat enginn séð nema Halldór Jakobsson. Og var það meining Halldórs að kerlingin sem Jón vakti upp hefði orðið honum að bana.

Þjóðsögur Jóns Árnasonar,
III. bindi, bls. 547-548
(eftir handriti Björns Sveinssonar á Kaldrananesi)


Hægt er að lesa meira um þetta á Viskubrunni galdrasýningarinnar á Ströndum.

En nú áramótin magnaði bróðir upp sendingu til mín, sbr kvæðið um graðfolann sem barst mér. En síðan þá hef ég ekki getað setið, því næstu daga mögnuðust upp þjóhnappaeymsli hin meiri. Var sem ég hefði riðið ótömdum graðhesti langa vegu. Etv hefur þetta eitthvað með það að gera að synir mínir, sérstaklega sá yngri hefur verið að draga mig í leikfimi og honum hef þurft ganga í augun á. Tekið etv óþarflega á í stígvélunum og öðrum maskínum. En merkilegt samt að einhverjar þær mestu harðsperrur sem ég hef fengið skuli bundnar við þessa fáu vöðva en vasklegu sem klæða botnin, svona rétt eftir útreiða kvæði bróðurs. Einhverjir í fjölskyldunni hefðu haft skýringar á því....


Eftirmáli:
Þess má að lokum geta að Halldór þessi sýslumaður á Felli í Kollafirði varð m.a. frægur fyrir að gæta illa Fjalla-Eyvindar sem strauk úr vist hans. Hann var síðar settur af fyrir drykkjuskap og óráðsíu við strand verslunarskipsins Fortuna í Eyvindarfirði árið 1787.

Engin ummæli: