12. janúar 2006

Eðalgöfugi tryggðavin

Samskipti hafa breyst með tækninni. En lífstækni getur verið erfitt að þróa. Hluti af lífstækni eru samskipti. Einn býr yfir meiri lífstækni en annar. Hjá öðrum er lífið stöðugt drama. Í gamla daga gengu bréf á milli manna, flutt með landpóstum. Þau gátu verið lengi á leiðnni. Sagðar voru fréttir af árferði, heilsu og afkomu. Stundum ástarbréf og stundum voru klögumál viðruð í bréfi. Þá upphófst oft miskilningur eða ofskilningur á hinu ritaða orði. Sem tók langan tíma að leiðrétta því póstur var lengi á milli. Gat það verið dægradvöl. Svo kom síminn og allt einu hurfu pennavinir, aðeins sérvitringar skrifuðust á. En jólakortasendingar héldust við. Dagbækur lögðust af hjá almenningi þegar afþreying varð meiri og sjónvörpin stærri. Á þessu er aftur að verða breyting. Blogg verður gjaldgengara, msn algengara. Ungt fólk er í farabroddi í þessum byltingum en við gamla fólkið fylgjumst með í forundran og höfum ekki undan að tileinka okkur nýungar. Ærir reyndi að emm ess enna, en varð að aðhláturefni, vegna stafsetningavilla og hæggengi. Hann fylgdist ekki með og sat eftir særður, en jafnar sig. Ærir er ekki snar í snúningum. Hraðinn er oft svo mikill og pressan og óþolinmæðin að gamlingar einsog Ærir, sem ekki vita hvað hafi hitt þá fyrir og stendur eftir ráðvilltur. Á bestu dögum hugsar Ærir hægt, hann er málhalltur og muldrar í bringuna. Fáir skilja hann, hvað þá ef hann þarf að einbeita sér og segja eitthvað af viti við aðra eða stunda tjáskipti. Hann er ekki góður tjáskiptaaðili.

Ærir gladdist um jólin þegar hann fékk gamaldags bréf að norðan. Það var allt í senn, annáll af tíðarfari, sögur af fjölskyldunni og það flutti gleðifregnir. Halur er bréfritari og skulu honum færðar þakkir fyrir að viðhalda þessum góða sið, samhliða því að vera búinn að tileinka sér nýungar eins og glöggt má sá á vefsíðu hans. Þar örlagavefur hinnar líðandi stundar er spunninn og tíðarandanum gerð skil. Halur setti nýtt met í ár, þ.e. aldrei hafa fleiri stafir eða orð komist í hverja línu í jólabréfinu. En voru þau samt of fá, því fleiri mættu þau vera orðin sem Halur sendir oss.

Ærir kann ekki að orða í bréfi hugsanir sínar, en hann er enn læs. Jafnvel á milli lína ef þannig ber undir. Þó er það slæmur ávani en útbreiddur. Það hefur hann tekið eftir oftar en einu sinni í þeim fáu tjáskiptum sem hann reynir að gerast aðili að.

Hann las nýlega gamalt bréf sem hann lætur fljóta með, því hann veit að sín bréf og sendingar miskiljast. Það er úr Manni og konu eftir Jón Thoroddsen og skrifað á þessum árstíma fyrir margt löngu:


Stað 13. jan 17..

Elskulegi eðalgöfgi tryggðavin!
Næst því að þakka yður, ásamt elskulegri hústrú, fyrir margauðsýnda og í té látna tryggðreynda vináttu, velvild og góðsemi við mig og mína, sem og fyrir viðfelldna, skemmtilega og ástríka samfundi og ógleymanlegar velgjörðir á yðar heiðraða, góðfræga heimili síðast, er það einasta efni þessa fáorða miða að minnast á það, sem þér nefnduð við mig fyrir yðar hönd að útverka og umgangast, nefnilega kýrkaupin, og er þá í stuttu máli frá að segja, að kýrin, sem þér töluðuð um og báðum mig að útvega, reyndist eftir kunnugra manna frásögn lastagripur, seigmjólk, tannslæm og mesta stritla, og gekk ég því fyrir yðar hönd frá kaupunum, en nú hef ég fengið ádrátt um aðra kú fyrir yður, og kýrin kvað, eftir sögn seljanda og nákunnugra, vera allvænn gripur, sjö vetra gömul, ekki stórmjólk, en dropsöm og mesta happaskeppna, og ef hun hafnast að venju, stendur hún til að verða snemmbær; samt sem áður þorði ég ekki að fullgjöra kaupin, fyrr en ég talaði við yður; en maðurinn sem selur, vill hafa það afgjört sem fyrst, þar fleiri að honum téða kú falað hafa. Ég hef sagt honum að koma hingað næst sunnudag að færu veðri; verður því nauðsyn, að þér gjörðuð svo vel á greindum tíma hingað að koma og áður áminnzt kýrkaup við hann að slútter; ítem þarf ég margt fleira við yður að tala mér til ánægju og gagns og skemmtunar. Fyrirgefið flýtislínur þessar. Verið þér svo með ástkærri konu kærlegast kvaddir af yðar þénustu-skuldbundnum elskandi vin og velunnara.

Sigvaldi Árnason


Ærir sendir öllum sínum eðalgöfugum tryggðarvinum bestu kveðjur og upplýsir þá nýgjörðu uppgötvun sína að hann er ekki fæddur langt á undan sínum tíma eins og haldið var fram lengi, heldur langt á eftir sínum tíma og eykst fyrnska hans óðfluga.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

habakukk er líka nýr í þessum bransa, en nýtur þess að lesa blogg. rakst á síðuna þína. hann er aðdáandi Gríms Thomsens og vill minna á ljóð hans á fætur

Táp og fjör og frískir menn
finnast hér á landi enn,
þéttir á velli og þéttir í lund,
þrautgóðir á raunarstund.
Djúp og blá
blíðum hjá
brosa drósum hvarmaljós.
Norðurstranda stuðlaberg
stendur enn á gömlum merg.

Aldnar róma raddir þar,
reika sveipir fornaldar
hljótt um láð og svalan sæ,
sefur hetja á hverjum bæ.
Því er úr
doða dúr,
drengir, mál að hrífa sál,
feðra vorra og feta spor
fyrr en lífs er gengið vor.

Nafnlaus sagði...

Pastor loci Sigvaldi Árnason var lengi ein af uppáhaldspersónum unglingsins Hals og bréf þetta staðfestir að gott var og er að hafa slíka menn ofarlega á blaði. Halur þakkar orðin að ofan, en öll verða þau að teljast ýkjur og varla verðskulduð, en þessi þegar orðin of mörg.
Halur Húfubólguson

Nafnlaus sagði...

Sem og svo oft áður þá er ég hjartanlega sammála Æri. Jólabréfið hans Hals hefur verið eitt af hápunktum jólanna/jólakortanna frá Íslandinu. Það er skrifað á íslensku máli sem ekki sést lengur og yrði mér ofraun ef á þyrfti að halda við búning ritaðs máls. k