11. janúar 2006

Það gerir hver sína naglasúpu eins og hann er skapaður til

Nú hefur sú ritstjórnarstefna verið tekin upp á Æri að fjalla eingöngu um mat, enda neytir hann sem neytandi alltof mikils matar og tímabært að á því sé tekið. Því er best að fjalla um þennan meðfædda ættlæga veikleika og byrja á mataruppskriftum. Enda átaks þörf eftir jólin, því ekki sést lengur hangikjötið.

Í dag kom ég heim úrvinda eftir annir dagsins, hafði reynt að kenna nemendum á framabraut um lungnaendurhæfingu, en hana kunni kennarinn ekki sjálfur. Kennslustundin var því í samræmi við það. Nemendur sáust á göngum flissandi í síma, þegar þeir áttu meðtaka sannindi sem drupu af vörum kennarans. Er ég kom heim biðu mín skyldur heimilisins og fátt annað. Reyndar kom ég seint heim, því ég fór að þvo bílinn og tók það drjúga stund. En heim kominn var stefnan tekin á að elda kjötsúpu, enda bitakjöt í hana keypt í gær, - án annarar fyrirhyggju. Því fátt annað var til í þá soðningu fyrir utan, -ef til vill, þurrkaðar matjurtir. En margt annað þarf í kjötsúpu.

Hófst því eldamennskan, eins og svo margt annað, eins og ferð án fyrirheitar. Engin var laukur. Var því hafist handa við að brúna kjötbitana, -en það gerir maður ekki. Að minnsta kosti ekki í kjötsúpu. En þessi kjötbitar voru brúnaðir við háan hita í djúpum og breiðum potti. Um stund datt mér í hug að hugsanlegt væri að búa til bitasteik úr kjötsúpunni, og hafa hana í brúnni sósu. En frá þeirri hugmynd var horfið skjótt. Kjötsúpa var planlögð í gær og í dag skyldi hún elduð. Hvernig getur maður treyst nokkrum hlut, ef ekki standast ákvarðanir um kjötsoð og súpugerð. Svo voru þetta líka bein að stórum hluta og þau eru ekki góð undir tönn, né fylling í maga. Og svo gætu þau staðið þversum í manni eins og svo margt annað.

Ekki leið á löngu þar til kjötbitarnir urðu brúnir og fastir við pottbotninn, enda hitinn hár. En er það ekki þannig sem maður brúnar kjöt spurði ég sjálfan mig, enda ekki aðra að spyrja. Yngri sonurinn sofandi yfir Poptíví á neðri hæðinni. En ekki fannst mér þetta gáfuleg eldamennska og hóf því að velta vöngum um hvernig mætti nú nota það sem til væri í kotinu. Í skúffu nokkuri fann ég hvítlauk, kominn við aldur. Þrjú lauf af honum voru brytjuð í meðalsmáa bita eða sneiðar og skellt út í steikarpottinn. Þá fór að lifna yfir nokkrum heilasellum í framhluta heilans og ilmur sá sem upp reis var hvattning til frekari experimentasjóna. Í kryddskúffuni fann ég framandi krydd, enda matseldin þegar orðin framandi fyrir íslenska kjötsúpu. Þar leyndist krydd frá NOMU sem kallast smoky peri-peri. Það leit vel út, marglitt og með framandi angan. Úr þeirri dós hellti ég vænum slurk, svo vel hyldist kjötið. Nú fundust leifar af rauðu tómatpestó í ísskápnum. Því var snarlega skellt útí. Úr varð fagurlega þaktir rauðgylltir brúnaðir kjötbitar, með ókunnum ilmi sem fyllti húsið.

En hér var ekki látið staðar númið. Því langt var í að rétturinn líktist kjötsúpu, reyndar afar ólíkt slíku fyrirbæri. Sonurinn yngri vaknaði og spurði í forundran hvað væri í matinn. Að bragði var svarað. Naglasúpa. "Nú hvers vegna?" Nú vegna naglans sem ég setti í pottinn. Hann semsagt ungmenni kominn undir tvítugt þekkti ekki fyrirbærið, hugtakið eða söguna um naglasúpuna. Hann bauð hins vega "high five" og saman skelltum við lófum. Hann hvarf á braut, haldandi að faðir hans væri virkilega með lausa nagla í súpunni og sannfærður um lausa skrúfu í hausnum.

Nú vantaði soð. Fann einn tening af grænmetiskrafti, Oscar andakraft frá jólum og ögn af nautakrafti. Blandaði öllu þessu saman í sjóðani vatn og út á steikina. Nú breytist naglasteikin í naglasúpu. Upp steig gufa. Svo fóru nokkrar gulrætur í og látið malla óáreitt eins lengi og þolinmæði hvers og eins bíður. En við vitum vel að þolinmæði er afstætt hugtak og margir eru óþolinmóðari en aðrir, þeir fá kannski ekki eins vel eldaða súpu og aðrir. En hvað veit ég um það, enda er þetta ekki vettvangur til að fjalla um það.

Ég held ég hafi ekki átt meira við þessa súpu. Nema jú, hún bragðaðist, -já hún bragðaðist eins og naglasúpa.

Bon apetite


Innihald:
Kjötbitar, lamb
Gulrætur
Súpujurtir (þurrkaðar á þessu árstíma)
Olífuolía hreinnrar meyjar
NOMU, smoky peri-peri krydd*
Rautt tómata pesto
Hvítlaukur (helst mikið)
Andakraftur (n.b. endur en ekki anda, sbr fyrri pistil minn i dag)
Nautakraftur (ekki nautnakraftur, sbr enn eldri pistla)
Grænmetiskraftur (en almennt er ekki mikil kraftur í grænmeti)
Vatn

*NB fyrir þá sem vilja skapa sína eigin naglasúpu þá er um að gera að skipta þessu kryddi út fyrir annað framandi og ókunnulegt krydd.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég mæli með þessari uppskrift, sakar ekki að leyfa nokkrum grjónum að fljóta með í pottinum eins og gert var í gær, í öllu grænmetisleysinu. Ég er ekki frá því að ég hafi fengið andann yfir mig af öllum andakraftinum.