25. desember 2006

Gleðileg jól

Jólakvöld

Nú skal leika á langspilið veika
og lífsins minnast í kveld,
hjartanu orna við hljóma forna
og heilagan jólaeld,
meðan noðurljós kvika
og blástjörnur blika
og boganum mínum ég veld.

Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.

Sendi þetta fallega kvæði sem mér barst, til ykkar allra. Megi árið framundan verða ykkur til heilla og gæfu.

8. desember 2006

Framtíðardraumar


Fann þetta á netinu.

29. nóvember 2006

Frá liðnu sumri


Annað kvöld verður myndakvöld frá hestaferðinni á Löngufjörur síðastliðið sumar.
Hér má sjá ferðafélagana ÞH með Greifa. Glói hengir haus álengdar.

18. nóvember 2006

Sá grái

Í dag er hörkufrost í Reykjavík. Tólf stig í mínus. Við feðgarnir þrír drifum okkur á Gráa köttinn og fengum okkur morgunmat. Annar sonanna hafði verið í vísindaferð í gær í ónefnt bankaútibú og bað um lítinn skammt af amerískum vöfflum. Þegar daman kom með matinn til okkar spurði hún: "og hver er svo með barna skammtinn"? Ég og hinn fengum okkur hinsvegar almennilega skammt við hæfi fullorðinna með fulla heilsu.

1. nóvember 2006

Tískudrósir í grasagarðinum

Burberrys og Armani. Ég er nú, svona, meiri armani gæji.


25. október 2006

Beinsæði - osteospermum

Rakst á þessa "jurt".

18. október 2006

Er veröldin tófú.

sá þennan fyrirlestur auglýstan:

Er veröldin tófú? Hugleiðingar um eiginleikahyggju.

17. október 2006

16. október 2006

Endurlífgun á Herrakvöldi Fáks

Fór á Herrakvöld Fáks á laugardagskvöldið. Þar var önnur vínmenning en ég á að venjast. En mér líkar hún vel.

13. október 2006

Uppátækjasamir synir

Ég á tvo syni, (og nei þetta er ekki mynda af þeim báðum heldur bara öðrum). Var að lesa heimasíðu þess eldri þar sem hann lýsir hrekkjum gagnvart þeim yngri. En ég verð að segja, mikil er bræðarkærleikurinn. Því sá yngri hefur aldrei kvartað við föður sinn. Veit ekki hvaðan þeir hafa þetta. Hrekki og umburðarlyndi.

11. október 2006

Haustlitaferð í Haukadalsskóg

Fór með gömlum vinum í göngutúr um Haukadalsskóg um sl. helgi. Þar tók Kata þessar fínu myndir. Fleiri myndir eru á heimasíðunni hennar.

Ski Dubai

Þetta beið mín í póstinum í morgun, skoðið endilega þennan tengil yfir á myndasíðu SkiDubai Athugið að þetta er allt innan dyra út í miðri eyðimörk Arabíuskagans. Nú vitum við í hvað benzíngreiðslurnar okkar fara í.

Reyner's Special Offers:


Shopping in Dubai – 1,000 upscale outlets, private transport, extras >>

Ski Dubai! – private transport, passes & equipment at indoor resort >>

Beach vacation in Dubai + choice of golf, tour, more – limited time >>

Get custom offers featuring your favorite places and pastimes – from golf packages in Orlando to spa specials in Singapore:
1. Create an online account – fast and free >>
2. When done, click "Modify Account" to Edit your Travel Interests


Featured Destination Offers:


Zoo or theme park tickets + breakfast, family time in Germany >>

Novel vacation – Da Vinci Code sites, breakfast, London luxury >>

Dino Jaws at London's Natural History Museum – family tickets, bed & breakfast >>

Discover Manchester, UK for £75 – near airport, spa services available >>

Two-night spa break in Leeds, passes to Waterfall Spa – luxury in the UK >>

3. október 2006

Laufskálarétt

Fór norður í Skagafjörð, Hjaltadal, í Laufskálarétt þar sem var þrusustuð að vanda.

Hófadynur og glaðir knapar.

Skín við sólu Skagafjörður.......

Hér syngja bara bjartir tenórar


Þennan keypti ég. Glóabróður. Undan Gömlu-Stjörnu frá Ásgeirsbrekku og Hervari frá Sauðárkróki. Þarf að finna nýtt nafn á blessaðan gæðinginn sem er 5 vetra og ótaminn. Hér hefur Bjarni bóndi í Ásgeirsbrekku handsamað gripinn.

Þetta skjótta folald keyptu Finnur og Fanney af Steingrími á Laufhóli.

28. september 2006

Hauststemming


Týndi 25L af krækiberjum sem nú eru orðin að hlaupi, safti, sírópi og snafsi. Týndi líka eina tunnu af sveppum.

21. september 2006

Sokkaleistadagur

Í dag er sokkaleistadagur hjá mér. Tiltekt á skrifborðinu.

Allt eða ekkert

Það virðist vera viðhorf æði margra þessa daganna.
Heimsyfirráð eða dauði.

19. september 2006

Gæðingar að hausti

Fékk unglingana úr tamingu um helgina, Hálfmána 4 vetra og Greifa 7 vetra. Báða ættaða frá Ásgeirsbrekku í Skagafirði. Þeir eiga það sameiginlegt að rekja ættir sínar til Ófeigs frá Flugumýri. Óli hefur náð fínum árangri með þeim yngri, en Greifi stefnir í það að verða barnahestur, hvers manns hugljúfi.

Stoltur eigandi með gæðingsefnið.

Hér að neðan á Greifa.
Hálfmáni leikur listir sínar með hárri fótalyftu.
Er sennilega að dansa bí ba búm. Þeir gerast vart glæsilegri og prúðari.





(myndirnar birtar með góðfúslegu leyfi Fingurbjargar ljósmyndara m.m.)

18. september 2006

Maríufiskur

Í seðlasöfnum þeim sem safnað var til á Orðabók Háskólans um áratuga skeið eru mjög fáar heimildir um maríulaxinn og engin sem skýrir nafnið eða hvort einhver siður var að baki. Aftur á móti er orðið maríufiskur vel þekkt orð og heimildir til um það að minnsta kosti frá 17. öld.

Maríufiskurinn var fyrsti fiskur sem sjómaður veiddi á ævinni. Skyldi sá sem veiddi fiskinn gefa hann fátækustu (sumir segja elstu) konunni í verstöðinni þegar komið var í land. Ef maríufiskur unglings var góðfiskur, það er þorskur, ýsa eða lúða, var spáð vel fyrir honum og framtíð hans á sjónum.

Þennan sið má rekja aftur til kaþólskrar trúar og var maríufiskurinn þá eins konar heitfiskur. Heitið var á Maríu mey til fiskiheilla og var henni gefinn fyrsti fiskurinn.

Líklegast er að heitið maríufiskur hafi færst yfir á laxveiðar og fyrsti laxinn sem veiðimaður fékk í veiðiferð þannig verið nefndur maríulax.

af Vísindavefnum

12. september 2006

Akureyrarskáldin / Elísabet Geirmundsdóttir

Hef verið að grúska í Akureyrarskáldunum svokölluðu. Í þeim hópi er m.a. Bragi Sigurjónsson, en einnig Elísabet Sigríður Geirmundsdóttir, listakonan í fjörunni. Eftir hana er þessi lágmynd af Sigyn að forða Loka frá eitrinu.


Elísabet var skáld ágætt líka og hér er eitt ljóða hennar:





Án titils

Skjálfandi dropar falla blað af blaði,
björt yfir austurfjöll er sólin stigin
vekur af blundi allt sem dregur anda.

Bíðandi ylsins björk og reynir standa,
blikandi lauf í morgunkuli titrar,
senn hækkar röðull, vermir allt og alla.

Út yfir sundin, inn um hlíð og hjalla,
örléttar þokuslæður mjúkar liðast,
leysast í sundur, hverfa burt í blænum.

Brjósthvítir mávar líða yfir sænum,
skuggar af vængjum fljúga báru af báru,
bjóða þær góðan dag með rómi þýðum.

Þegar þær kyssa sandinn kossi blíðum,
kvikandi ljósbrot titra í vatnsins gáru.

11. september 2006

Skuld


Þetta er hún Skuld frá Vindási, Ingólfsdóttir Hrafnssonar frá Holtsmúla.

Prinsessan mín.








Skuld er gæðingur. Ég fékk hana úr reiðskóla og kynntist henni reyndar þar. Hún var fyrsti hesturinn sem tölti hjá mér að einhverju gagni. Hún var hugljúfi barna, en reyndist fullorðnum erfið, nema mér. Við náðum saman frá fyrstu stundu. Þegar reiðskólinn var lagður niður bauðst mér hún til kaups og var ég ekki lengi að hugsa mig um. Hún hefur margfallt launað mér það og unir hag sínum vel. Verður glæsilegri með hverju árinu. Hún skiptir svolítið lit eftir árstíðum. Verður mjög ljósrauð á sumrin en dekkri á feldinn á veturnar. Nú er feldurinn farinn að dökkna og faxið er enn ljóst. Þessa dagana er hún því glófext. Hún á til að vera svolítið sérlunduð og oft einfari. En hver er það ekki, svona endrum og eins.

Göngur og réttir

Átti ótrúlega skemmtilega og viðburðaríka helgi. Fór í smalamennsku á Rangarvöllum. Smalaði Hekluhraun fyrir bændur á Kaldbak.












Þetta er í fyrsta sinn sem ég fer í smalamennsku frá því ég þurfti að smala fyrir systur mína og Svein mág á Vatnsenda forðum. Þá var maður látinn hlaupa við fót, en nú notaði maður tæknina og fór á hestbaki. Þetta voru fyrstur göngur okkar Hófs og ég verð að segja að í upphafi þótti honum húsbóndinn heldur skrýtinn og efaðist um öll fyrirmæli. Reyndi ítrekað að leiða mig af villu míns vegar. Svo þegar ég fór að hóa á skjáturnar þá taldi hann víst að ég væri orðinn villtur og væri að kallast á við félaga mína og vildi hann hjálpa.
Í hvert sinn sem ég hóaði þá hneggjaði hann hátt og snjallt. Þannig fórum við um alla mýrina við Geldingalæk og langt inní Hekluhraun. Svo áttaði hann sig á því að ég væri að hóa á kindurnar og þegar við fundum nýjar rollur þá var orðinn iðulega fyrri til og hneggjaði á þær til að stugga við þeim. Hann var fljótur að læra út á hvað smalamennskan gekk. Varð ótrúlega snúningalipur og snarpur. Þegar við komum svo að túnum varð hann ókyrr og og við þeyttumst um á stökki, upp og niður hæðir og hóla á mikilli ferð. Hann var í essinu sínu. Kunni sér varla hóf.


Heima á Kaldbak biðu okkar kræsingar, borð svignuðu undan veitingu. Hnallþórum, pönnukökkum og öðru munngæti. Þurfti lítið að grípa til skrínukostsins sem samanstóð af sviðakjömmum, harðfiski, soðnu brauði og hangikjeti.



Smalar komnir heim með safnið. Maður er manns gaman.



Þar biðu fagnandi ungir sem aldnir í miklum spenningi. Hér er Úlfur Torfason Finnsson með afa sínum.


Kom heim sæll og endurnærður eftir helgina en átti eftir að verða enn sælli.

8. september 2006

Helgin framundan








Útilega og réttir.
Fer í smalamennsku.
Hross í nótt og sauðfé á morgun.
Ligg við í tjaldvagni.
Vona að veðurspáin sé rétt og að vinnukonurnar dragi af manni vosklæðin.

Blágrasadalur

Á hvítum veggjum
er mynd af blágrasadal
þrettán x átján
hérna býr ekkert annað
minningin geymir allt hitt

7. september 2006

Nú ertu horfin

Datt í að hlusta á South River Band sem er auðvitað frá Kleifum í Ólafsfirði, nánar tiltekið Syðri-Á. Mundína samstarfskona mín er frá Ytri-Á og heitir í höfuðið á ömmu sinni.
Á Syðri-Á bjó Jón á Syðri-Á, harmonikuleikari, skáld og lagasmiður og lífskúnstner. Ég á áritaða ljóðabók eftir hann. Í kringum hann var stofnuð þessi hljómsveit. Ég á tvo af diskum þeirra. Hér er eitt af ljóðum Jóns:

Nú ertu horfin

Þú hvarfst sem draumsjón, fyrir dagsins brá,
dimmir skuggar fylltu huga minn,
sem vorið unga og bjarta, þú vaktir mína þrá
og vonir ljúfar upp við barminn þinn.

Ó, finnurðu ekki hve ég þrái þig
þrungið harmi og friðvana er
hjarta mitt í leit að þér.

En sé ég oft í draumi þitt sólargullið hár
og safírbláu augun horfa á mig,
ég leita inn í rökkrið og hyl mín tregatár,
í tóna bind ég minninguna um þig.

Nú ertu horfin - út á húmsins ver
hjarta mitt sorgþrungið er
því að einni unni ég þér.

Ég geng í myrkri

Ég geng í myrkri, gatan er mér týnd,
sú gata er mér sem besta leið var sýnd.
Mér þótti einsýn þessi flýtisferð
og fannst hún mundi verða á svipstund gerð.

En fyrr á þrek mitt gekk en glöggt mér var,
og grjótið hvasst mig sárt í iljar skar.
Það setti að huga mínum hik og geig
með hverju spori sem ég lengra steig.

Og þegar leiðin reis í fang, ég fann
að fast á hæla mína efinn rann
og sífurrómi síspyrjandi var,
hvort sæi ég nokkrar götur liggja þar.

Á miðju fjalli hefur nótt mér náð,
ég næsta fáu get um lokin spáð,
en efinn hefur villt mig svo á veg,
að viljalaus í spor hans þræði ég.


Ljóð: Bragi Sigurjónsson

Við þetta ljóð Braga og einnig það fyrra sem birt var hér hefur Kormákur Bragason samið ágætislög, sem South River Band hafa gefið út.

6. september 2006

Berið mig vindar

Fölnar um hlíðar, færist haustið að
fálæti sólar vex með hverjum degi,
farfuglar þöglir hópast himinvegi
berið mig vindar, burt úr þessum stað.

Blómjurtin fagra lögst er löngu nár,
lífsviskan öll er þjökuð dvalasvefni,
hvarvetna þrotin gleði og yndisefni.
Liðið er enn til loka sólskinsár.

Kalt er mér löngum, kreppir hjarta að
kvíði af sterkum grun um vetur langan
en hvað ég þrái sól og sumarangan!
Berið mig vindar, burt úr þessum stað.


Ljóð e: Braga Sigurjónsson.

4. september 2006