30. desember 2008

Krækiberjakoppafeiti


árgangur 2006 er jólasnapsinn minn i ár. Hann fær mig til að brosa.

Engar smásögur

Það er alltaf gaman á jólum. Með aldrinum finnst mér orðið meira gaman að gefa en þiggja og farinn að skilja máltækið. Þannig gaf ég málverk eftir sjálfan mig. En ekki víst að öllum þyki sem þau hljóta þyki það eins gaman.

Það er gaman að sjá hvað kemur upp úr pökkunum. Þannig fékk ég Rökkurbýsnir eftir Sjón og Engar smásögur eftir Andra Snæ. Einnig forláta norska peysu sem ég fór í öll jólaboðin í og ætla helst ekki úr fyrr en hún fer að lykta, -en það gera lopapeysur seint.

Graflax-jól

Jólin hafa verið skemmtileg og gefandi. Þannig fékk ég graflax frá bróður mínum og mágkonu sem hefur verið þríveigis í forrétt um hátíðirnar hjá mér, eða í öllum veislunum sem ég hef haldið. Meira segja fengum við graflaxinn sem bróðir sendi systur okkar í stórfjölskylduveislunni á öðrum degi jóla. Enda alveg einstakt ljúmeti. Það vantaði bara uppskriftina frá mömmu að sósunni frægu. Hafið bestu þakkir bróðir og mágkona.

Spáðu í mig

Ég er orðin meiri kaffisvelgur en gott þykir. Sló þó öll met, þó ekki í kaffidrykkju, á milli jóla og nýárs. Lét spá í bolla hjá mér. Þannig var að ég og Hólmgeir ásamt Finni og Guðjóni vinum okkar fórum í hestaleiðangur á Rangárvellina. Til að sækja hesta. Vorum við vel vopnum búnir og tilbúnir í slark. Það kom þó ekki til þess þar sem bændur á Kaldbak fóru á fjórhjólum að smala hólmann og komu með stóðið heim í gerðið. Á meðan sátum við með heimsætunni, þeirri elstu á bænum, glaðlyndri og skemmtilegri eldri frú sem krafðist þess að fá að spá í bollana okkar. Eftir nokkuð japl jaml og fuður, urðum við við þessari málaleita. Í fyrsta sinn var spáð í bolla fyrir mig eftir að ég hafði farið með allar serímóníurnar og snúið bolla bæði rangsælis og réttsælis í þrjá hringi yfir höfðinu. Aðrir gerðu líkt hið sama. Spádómarnir voru skemmitlegir en þó hélt hún einhverju eftir hjá sumum, sennilega slæmum tíðindum. Þannig má Finnur ekki fara í hrossakaup á næstunni því einhver reynir að hlunnfara hann. Hólmgeir er ungur og brokkgengur og hjá mér er bjart framundan og fjársjóður lá í botni bollans. Etv eitthvað lauslæti líka. Hver veit nema ég fari að að verða fráhverfur skírlífsheitinu á komandi ári.

Jólakveðjur

Sendi öllum vinum og ættingjum nær og fjær hugheilar jólakveðjur. Í ár, sem og í fyrra sendi ég ekki út pappír og spara þannig regnskóginn. Ætla að taka upp þann sið aftur að ári.

23. desember 2008

Gómlosandi

Heilagur Þollákur er á leiðinni. Tók forskot á sæluna í gær og fór á þrjá frakka og borgaði hvítuna úr augunum fyrir vel kæsta skötu. Var hún gómlosandi eins og sagt er í dag. Fljótlega dofnaði nef og svo tunga og á endanum fann ég ekkert bragð af vestfirsku hnoðmörinni sem var borin fram með þessu. Áferð rúgbrauðsins gat ég ekki greint svo dofin varð tungan og gómurinn.

Í kvöld fer ég svo í stór-stór fjölskyldu skötuveislu föðurættar minnar en sú hefð er ævaforn og eldri en elstu menn muna. Heldur hefur fækkað í hópnum því Kristín Jónsdóttir læknir, frænka mín lést á þessu ári en hún var vön að taka þátt í þessu með okkur. Elst verður Anna frækna ríflega níræð að aldri. Ég hitti hana fyrir tveimur dögum og hún var alveg ákveðin í að láta sig ekki vanta. Í Skipholtinu verða fagnaðarfundir fram eftir kvöldi.

19. desember 2008

Kýrrassa tók ég trú

Kýrrassa tók ég trú.
Trú þessa hef ég nú.
Í flórnum fæ ég að standa
fyrir náð heilags anda.

Káinn

Skáldið sonur minn

átti ljóð gærdagsins:

Til er mynd
mynd í minni bók
mynd af engli
engli sem grætur.
brosir gegnum tárin
innviðið er brotið
en myndin er ósnortin

Hróel
1986-

15. desember 2008

Deilt um dropana

Á sunnudag leit ég við hjá systur og fékk áfyllingu af smákökum sem hafa runnið út hjá mér eins og heitar lummur og fallið sonum mínum og þeirra fylgifiskum vel í geð.

Eins og við var að búast hafði systir ekki setið auðum höndum, heldur hafði snúið við einum kraga á skyrtu hjá mér (já það er komin kreppa) og bakað lagköku að hætti mömmu gömlu samkvæmt uppskrift skrásettri af Gunnu systur. Vel tókst til og var hún stökk eins og vera ber en ekki eins og þessar linkökur í lögum sem nútildags fást í stórmörkuðum.

Gunna mun hafa haldið því fram að engir dropar væru í deiginu en systir var ekki frá því að það vantaði kardemommur eða vanillubragð. Ég sem er svo miklu yngri að ég kann ekki að greina þar á milli, enda vildi ég sem barn miklu frekar brúnkökuna með hvítakreminu og lagðist á þá sort og lét systkinum mínum eftir ljósukökuna með sultunni. Mér fannst lagkakan hinsvegar gómsæt og svo var einnig með synina sem fengu hana í eftirrétt um kvöldið.

Hangið kjöt og hugarglímur

Á laugardaginn var ég með 13 manns í mat. Það var þrekvirki fyrir piparsvein. Um daginn tóku vinir mínir hús af mér og lögðu undir laufabrauðsgerð að áralöngum sið. Deig var hnoðað, brauð var flatt og útskorið á listilegan hátt. Vinir mínir komu með gamla heimasmíðaða íslandsfiðlu með þrem strengjum, symphón og enska hörpu og sungu lög frá 17. öld. Annar las upp úr sögu jólanna og ég las nokkur ljóð úr en óútkominni ljóðabók minni sem vonandi sér dagsins ljós á næsta ári. Hver veit. Að lokum var stórt hundrað laufabrauðs steikt í potti.

Um kvöldið bauð ég svo upp á hangikjöt, afskorninga, baunir og rauðkál og kartöflur. Reyðfirðingurinn sauð uppstúf og komast tólf manns að stóra borðstofuborðinu mínu. Þetta þótti mér afrek og var spjallað og sagðar lygisögur langt fram eftir kvöldi.

Oggulítil

Hellist yfir hugarbálið
er húmið sækir að.
í þig verð að stappa stálið
stattu bein og mundu það
að eftir skúr mun skína sólin
skært og hlýtt á heima hólinn.

8. desember 2008

Æris mýkt

En mýkist Ærir. Um helgina var hann uppduppaður í aðstoðarmannshlutverk bakara. Réttarasagt varð hann bakaradrengur og bakaði piparkökur, vanilluhringi, súkkulaðibitakökur og spesíur. Allt í boði systur sem hnoðaði deig á meðan ég las upp uppskriftir og deildi í eða margfaldaði hverja lúku af hveiti, sykri og smjöri eftir því sem við átti. Það var vandasamt hlutverk. Mest vinnan fór þó í að gera vanilluhringina enda ákveðið verklag frá móður okkar sem þarf að halda til haga. Það þarf nefnilega að ná fram göddum á hringina og það gerist aðeins ef deigið er nægjanlega kallt og stinnt. Þá verða til stjörnu kransar og því þarf að hafa hraðar hendur á. Allt var þetta mælt og mótað eftir kúnstarinnar reglum og bakað við 200 gráðu hita og og tími stilltur eftir nefi systur minnar sem veit hvenær smákökur eru fullbakaðar með því einu að greina lyktarbreytingu í eldhúsinu, en slíka hæfileika hef ég ekki enn þróað með mér.

5. desember 2008

Grafin gæs - æris special

Ljóðræn lýsing mín á grafinni gæs hér um árið vakti talsverða eftirtekt og vegna fjölda áskoranna birti ég hér aftur uppskriftina.

Þetta þarf til:

1 mtsk rósapipar
1 mtsk fennel fræ (absolút ekki gleyma)
1 mtsk timían
1 mtsk rósmarín
1 mtsk sykur

Bringur huldar í grófu salti í 2 klst við stofu hita. Skola salt af e. 2 klst+. Kryddblanda sett á. Geymst í kæli vel lokað í t.d. álpappír. Tilbúið eftir 1 sólarhring og batnar. Ef gæsin hefur ekki fengið að hanga áður er gott að geyma hana í kæli í eina nótt áður.

Borið fram með risperjahlaupi og klettasalati.

2. desember 2008

Ábyrgð

Við sem sitjum í kotinu kalda
á Alþingi höfum útvalda
þingmenn marga
sem hátt nú arga
af ábyrgð þeir telja sig kvalda

Á Austurvelli - sú var tíðin