17. júní 2008
Þjóðhátíðardagurinn
Við héldum upp á þjóðhátíðardaginn með því að ríða niður á Rangárvelli. Ferð minni var heitið að Kaldbak við Ytir-Rangá en aðrir ætluðu á næsta bæ, Bolholt. Í Hólaskógi var enn rok og moldviðri en sem betur fer var það í bakið. Hrossin voru spræk í vindinum og riðum við sem leið lá niður að Búrfellsstíflu og fengum að fara þar yfir með hrossin. Þennan dag skiptum við oft um hesta og launuðu þeir okkur með því að halda vel áfram enda farin að átta sig á að við værum að koma í heimahaga. Líflegt var yfir rekstrinum. Ég fann alveg þegar viljinn óx í mínum hrossum og stóðu þau sig með prýði. Sérstaklega komu þau Skuld og Glói skemmtilega inn. Ég reið Glóa í upphafi dags og svo aftur síðasta legginnheim og var gaman að finna hvernig honum óx ásmegin í síðari hlutanum þannig að hann breytist í viljahross og ég tímdi ekki að hætta á honum fyrr en í hlað var komið. Á honum reið ég yfir Ytri Rangá og var það eins gott því áin var djúp í þetta sinn, þó ekki þannig að við misstum hrossin á sund.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli