14. júní 2008

Á Þingvöllum

Helgin byrjaði á föstudagseftirmiðdag þegar við riðum frá Mosfellsdal yfir heiðina að Þingvöllum. Ég reið aðeins tvo síðustu leggina heima að Skógarhólum. Ferðinni heitið austur á Rangárvelli, í "heimahaga".
Hestarnir voru kátir og glaðir og skildu vel hvað í vændum var og köstuðu topp.

Á laugardagsmorgni var haldið um þjóðgarðinn og riðið um skógargöturnar og vildi ekki betur til en að fararstjórinn valdi ranga leið út úr Hrauntúni þannig að við misstum hrossin inn í hraunið og skógarjaðarinn. Þar sá ég út undan mér þrjú hross í hvarfi og fór að ná í þau en blessaðar skeppnurnar voru á öðru máli. Það sem verra var að ferðafélagar mínir tóku ekkert eftir að mig og aðra manneskju vantaði í hópinn og héldu þau sína leið eins og ekkert hefði í skorist. Við tvö vildum hinsvebgar ekki missa sjónar af hrossunum og upphófst þá eltingaleikur um víðan völl sem endaði með því að hrossin stungu sér inn í þétt skógarrjóður þegar komið var niður að þjóðvegi og hurfu þar alveg sjónum. Fundust þau ekki fyrr en eftir að aðstoð hafði borist frá flugvél sem sá til þeirra liggja makindalega í sólskininu.

Frá Þingvöllum var svo haldið um Lyngdalsheiði yfir að Mosfelli og áð við Sel en þangað er um 50 km dagleið. Enduðum svo kvöldið með mat og heitum potti á hótel Geysi.

Engin ummæli: