25. júní 2008

Ljóð dagsins á ljod.is 25. júní 2008

Ódáinsvellir
og draumlanda rökkrið
okkur sundrar
óskiljanlegar mannverur
í yfirlögðu næturhúmi
þar sem hvorugt skín
án hins.

Í dag á ég ljóð dagsins á ljod.is.

20. júní 2008

17. júní 2008

Þjóðhátíðardagurinn

Við héldum upp á þjóðhátíðardaginn með því að ríða niður á Rangárvelli. Ferð minni var heitið að Kaldbak við Ytir-Rangá en aðrir ætluðu á næsta bæ, Bolholt. Í Hólaskógi var enn rok og moldviðri en sem betur fer var það í bakið. Hrossin voru spræk í vindinum og riðum við sem leið lá niður að Búrfellsstíflu og fengum að fara þar yfir með hrossin. Þennan dag skiptum við oft um hesta og launuðu þeir okkur með því að halda vel áfram enda farin að átta sig á að við værum að koma í heimahaga. Líflegt var yfir rekstrinum. Ég fann alveg þegar viljinn óx í mínum hrossum og stóðu þau sig með prýði. Sérstaklega komu þau Skuld og Glói skemmtilega inn. Ég reið Glóa í upphafi dags og svo aftur síðasta legginnheim og var gaman að finna hvernig honum óx ásmegin í síðari hlutanum þannig að hann breytist í viljahross og ég tímdi ekki að hætta á honum fyrr en í hlað var komið. Á honum reið ég yfir Ytri Rangá og var það eins gott því áin var djúp í þetta sinn, þó ekki þannig að við misstum hrossin á sund.

16. júní 2008

Reynt við Þjórsá og horfið frá

Á mánudegi rann upp stóri dagurinn. Fyrir hugað var að ríða yfir Þjórsá á Nautavaði, fornri leið um suðurland. En þær fregnir bárust að Landsvirkjun væri farin a hleypa úr lónum og því væri áin orðin ófær. Flestum þótti þessar fréttir miður en öðrum var létt.
Nú var haldið upp Þjórsárdal frá Ásum í Gnúpverjahreppi og vegi fylgt inn að Sandá og þar farið inn á varðaða slóð upp að Hólaskógi með viðkomu á bænum Stöng þar sem við áðum og skoðuðum hinar fornu rústir sem eru grunnurinn að þjóðveldibænum neðar í dalnum.
Við riðum framhjá Gjáinni sem er mikil og fögur náttúrusmíð. Síðustu metrana heima að Hólaskógi riðum við í roki og moldviðri, en þar beið okkar veislukostur eins og reyndar öll kvöldin.

15. júní 2008

Á Hálfmána í fyrsta sinn!

Á Sunnudeginum 15. júní var haldið af stað frá Seli leið sem liggur mest með þjóðveginum um Skálholt, yfir Iðu á brú og niður Skeiðaafleggjarann alla leið að Árnesi og upp að Ásum í Gnúpverjahreppi. Þessi ferð gekk vel og hrossin mín fimm farin að hressast og venjast ferðahraðanum. Síðasta áfangann heim að Ásum reið ég í fyrsta sinn honum Hálfmána mínum. Ekki var laust við að ég væri smeykur við að fara á bak í fyrsta sinn, en það var ástæðulaus ótti. Hesturinn í góðu jafnvægi, alveg slakur og afslappaður og tölti svona ljómandi vel með mig alla leið, nema upp bröttustu brekkuna í heimreiðinni þar sem við stukkum létt. Þetta verður gæðingur það er ég viss um. Nú skortir þrek og úthald hjá honum blessuðum en það kemur og þá vex viljinn líka.

14. júní 2008

Á Þingvöllum

Helgin byrjaði á föstudagseftirmiðdag þegar við riðum frá Mosfellsdal yfir heiðina að Þingvöllum. Ég reið aðeins tvo síðustu leggina heima að Skógarhólum. Ferðinni heitið austur á Rangárvelli, í "heimahaga".
Hestarnir voru kátir og glaðir og skildu vel hvað í vændum var og köstuðu topp.

Á laugardagsmorgni var haldið um þjóðgarðinn og riðið um skógargöturnar og vildi ekki betur til en að fararstjórinn valdi ranga leið út úr Hrauntúni þannig að við misstum hrossin inn í hraunið og skógarjaðarinn. Þar sá ég út undan mér þrjú hross í hvarfi og fór að ná í þau en blessaðar skeppnurnar voru á öðru máli. Það sem verra var að ferðafélagar mínir tóku ekkert eftir að mig og aðra manneskju vantaði í hópinn og héldu þau sína leið eins og ekkert hefði í skorist. Við tvö vildum hinsvebgar ekki missa sjónar af hrossunum og upphófst þá eltingaleikur um víðan völl sem endaði með því að hrossin stungu sér inn í þétt skógarrjóður þegar komið var niður að þjóðvegi og hurfu þar alveg sjónum. Fundust þau ekki fyrr en eftir að aðstoð hafði borist frá flugvél sem sá til þeirra liggja makindalega í sólskininu.

Frá Þingvöllum var svo haldið um Lyngdalsheiði yfir að Mosfelli og áð við Sel en þangað er um 50 km dagleið. Enduðum svo kvöldið með mat og heitum potti á hótel Geysi.

13. júní 2008

12. júní 2008

Fjallaeyvindur

Inn um glufur lósið lætur sverfa,
Í lágu byrgi læðist vera klökk.
Óskin einn er í náttúru að kverfa,
Fara innar, neðar, vera dökk.

Í höndum hrjúfum andlit hefur falið,
Við hvert andvarp, hreyfing er í leit.
En ekkert tár, því tárið hefur kalið,
Þar engin von, í von um nýjan reit.

Þá lítið ljósrof í sprungu leikur helli,
og slær á veggi annarlegum ljóma,
draumar vakna um fagur græna velli,
í frelsi lifna bak við lukta dóma.

Út hún braust og hljóp á lágu landi,
elt þar uppi fram um tímans okið.
Það lifa margir sem eru í þessu standi
og geta aldrei um frjálst hárið strokið.

Páll Hólm
1954-

Af ljod.is

Sleppitúr

Fífilbrekka, gróin grund,
grösug hlíð með berjalautum,
flóatetur, fífusund,
fífilbrekka smáragrund.
Yður hjá ég alla stund
uni best í sæld og þrautum.
Fífilbrekka, gróin grund,
grösug hlíð með berjalautum.

Sæludalur, sveitin best,
sólin á þig geislum helli,
snemma risin, seint er sest.
Sæludalur, prýðin best.
Þín er grundin gæðaflest,
gleði æsku, hvíldin elli.
Sæludalur, sveitin best,
sólin á þig geislum helli.

Ljóð: Jónas Hallgrímsson.

Þá er komið að því að fara með hestana í haga og árlegum sleppitúr. Kannski ég sleppi mér líka.
Mynd: horft út um gluggann á skrifstofunni minni.

10. júní 2008

Hjörtur Már fer á Ólympíuleikana

Örn Arnarson, sundmaður úr SH hefur lýst því yfir að hann muni ekki keppa í 100 m flugsundi á Ólympíuleikunum í Peking í ágúst, en hafði tryggt sér þátttökurétt í greininni með því að synda undir B-lágmarki. Hefur Örn sent Sundsambandi Íslands staðfestingu á þessu. Ætlar Örn að einbeita sér að baksundinu á leikunum.
Má því búast við því að Hjörtur Már Reynisson úr KR muni fara til Peking til að keppa í 100 m flugsundinu, en hann náði í gær B-lágmarkinu, en aðeins einn keppandi frá hverri þjóð má fara inn á B-lágmarki í hverri grein.

Mbl.is 9.6.2008

9. júní 2008

Hjörtur náði Ólympíulágmarkinu

Hjörtur Már sundmaður úr KR bættist í morgun í hóp þeirra sem hafa náð lágmarkinu fyrir Ólympíuleikana í Peking þegar hann synti 100 metra flugsund á 54,46 sekúndum á alþjóðlegu móti í Mónakó.

Hjörtur varð fjórði í undanrásunum en lágmarkið í greininni er 54,71 sekúndur. Besti tími Hjartar fyrir þetta sund var 55,12 sekúndur en hann náði honum á Ólympíuleikunum í Aþenu fyrir fjórum árum.

Í gær varð Hjörtur í fimmta sæti í 50 metra flugsundi á mótinu í Mónakó á 24,42 sekúndum en það er 25. besti tíminn í greininni í Evrópu á þessu ári.

Mbl.is 8.6.2008

Olympiulágmark og prúðmennska

Synirnir gerðu það gott um helgina.

Sá yngri fór fyrir hópi sundkrakka sem hann hefur verið að þjálfa í vetur, á mót á Akranesi og þar fengu þau verðlaun sem prúðasta liðið, glæsilegan bikar til minningar um góða og drengilega frammistöðu.

Sá eldri er í keppnisferðalagi á erlendri grundu og náði lágmarki í flugsundi fyrir Olympíuleikana í Peking.

Til hamingju strákar!

6. júní 2008

Fleiri myndir af Hvannadalshnúk

Hér koma fleiri myndir frá íslensku fjallaleiðsögumönnunum, þessar voru teknar úr flugvél sem sveimaði yfir þegar við vorum að nálgast toppinn.
Hér sést þegar verið er að fara yfir stærstu og erfiðustu sprunguna á hnúknum, þar var Ærir næstum runninin á rassinum ofan í hyldýpið.
Á toppi tilverunnar! Ofar skýjum.
Sprunginn Hvannadalshnjúkur. Hér sjást aðstæður mjög vel og hversu mikið jökullinn var sprunginn. Við urðum því að gera nokkrar lykkjur á leið okkar.

3. júní 2008

Á toppi

Myndir af vefsíðu Íslenskra fjallaleiðsögumanna, sýnir eina línuna og Hvannadalshnjúk í fjarska þann 31. maí 2008. Myndin sýnir vel snjóríkið í Öræfajökli og veðrið sem við fengum þegar við náðum loks alla leið upp á topp eftir 8-9 klst göngu.

2. júní 2008

Ís og eldraunir

Það kom af því að toppinum yrði náð. Ég og skógarvörðurinn lögðum land undir fót og fórum austur í Skaftafell með tjaldvagninn minn, hálf kvíðnir því sem þar biði okkar. Á móti okkur tóku hressir ungir fjallaleiðsögumenn sem stilltu mannbrodda á skó okkar og úthlutuðu ísöxum. Fengum við ýmsar leiðbeiningar og veðurspá til fjallgöngu snemma næsta morguns leit ekki illa út.

Vöknuðum kl 04:00 og ég teipaði tærnar til að reyna að forðast blöðrumyndun og síðan varð að velja fatnað því úti var rigningarúði, vedður stillt og logn. Al lokum sættumst við á að best væri að sleppa millilagi. Vera í nærbuxum og vatnsheldri skel. Mætt var við Sandfell kl 05:00 og ferðin hafinn hálftíma síðar. Gengið var fyrst upp i 400 m hæð og þar sem hægt var að fylla á vatnsbrúsa úr ferskum fjallalæk. Næst var stoppað á eggjum Sandfellsheiðar í 700 m hæð og hvílst í smástund en við 1050 m var farið í línu og gengin upp lengsta snjóbrekka landsins upp i tæpa 1900m eða á hábrún dyngjunar í Öræfajökli.

Þaðan var ganga og nú í snjókumu af og til og með ekkert ústsýni yfir dyngjuna sem er um 3 km löng og eftir 7 klst var komið að rótum Hvannadalshnjúk. Þar var ég nú eiginlega búinn að fá nóg en af þrjósku hélt ég áfram og hélt raunar að ekki gæti verið svo langt upp á topp en það reyndsit 2 klst ganga upp snarbrattan hamarinn, yfir viðsjárverðar sprungur, þar sem ég rann illilega til og endaði næstum ofan í einni þeirra í atriði sem hefði vel hæft í Indiana Jones mynd. En allt fór það vel.Á toppnum birti svo til og við fórum að sjá bláann himinn og einstaka hluti jökulisins þar til á niðurleið af hnjúknum að jökulinn hreinsaði sig alveg.

Í frásgöng af ferðinni má finna þetta "þegar allt í einu þokuskýin sem höfðu umlukið göngufólk gufuðu upp og himinbláminn kom í ljós. Hnúkurinn sjálfur varð sýnilegur, sem og Sveinstindur, Snæbreið og Hnapparnir. Ekki var svo amaleg fjallasýnin á leiðinni niður, Þumall, Miðfellstindur og Skaftafellsfjöllin skörtuðu sínu fegursta og sá vítt vestur um jökla".

Þetta var frábær upplifun. "Þjáninging er skammvinn en upplifuninn eilíf" eins og vís maður kvað. Göngutíminn var 15 klst, 7 klst að hnjúknum, 2 tíma upp og 6 tímar til baka. Okkar beið svo hressing þegar niður var komið en þegar heim á tjaldstæði var komið var slegið upp veislu að hætti skógfræðingsins, grillað lamba prime ribs í bláberja marineringu og viðhaft salat með grísku þema og skálað í Mumms Cordon Roughe.