30. september 2008

28. september 2008

Angus

Var með þennan fína kvöldverð með frábæru fólki, sem sagði vafasama brandara af Angus og Hamish og uppblásnum kindum. Í þetta sinn dreif ég fram forrétt, snigla í hvílaukssmjöri og bruchettu með rauðu pestói. Frábært að brúna baguette sneiðar í góðri ólivuolíu.
Síðan voru steiktar svínakótilettur, vel krydduðum með "best á lambið" og þær látnar taka sig í ofni eftir að hafa verið brúnaðar við snarpan hita á pönnu. Með þessu var salat með ítalskir dressingu og ofnbakaðir kartöflufleygar.

Í eftirrétt sem var kórónan voru auðvitað gamaldags vanillu íspinnar. Nokkuð sem bregst ekki. Tarte tatin býður enn.

Hestar og humar

Haustinu fylgja ákveðin verk og eitt af því er að bregða sér í sveitina og sinna hrossum. Ég fór í gær með synina og smalaði saman þeim Skuld, Glóa og Hálfmána og rifum við skeifur undan svo ekki verði þeim kalt á fótunum þegar frysta tekur. Að því loknu fórum við á veitingastaðinn Við fjöruborðið á Stokkseyri og gæddum okkur á humarveislu. Í dag kostar það svona circa það sama og að fylla tankinn á bílnum.

Fyrr um daginn, eða snemma morguns, dreif ég mig á málþing um sögu lækninga á Íslandi og læknaminjasafn í Nesi. Athyglisvert og þar hitti ég frammámenn læknafélagsins, m.a. Hal Húfubólgusón sem hafði frá ýmsu að segja að norðan. Borðuðum saman aspassúpu á Háskólatorgi hinu nýja.

Nú er ég nýkominn frá systur minni þar sem ég fékk lúðuhaus soðin með lárviðarlaufi og rúsínum. Mín bíður svo í dag að ganga frá nýrri rannsóknaráætlun, planinu stóra og fá fjölskylduna í mat í kvöld.

-Cest la vie

23. september 2008

Le Moule d'origine

Er lagstur í rannsóknir á Tarte Tatin sem ég býst við að spreyta mig á þegar kjarkurinn lofar. Fann þessa mynd af upphaflegu pönnunni sem tertan var bökuð í. Rannsóknir eru skemmtilegar, ætla að fara að stunda þær aftur í meira mæli.
Svo langar mig líka á gömlu dansa námskeið.

21. september 2008

Sic transit gloria mundi

Á einhverju augnabliki
það upp fyrir Munda rann
að brátt út í buskann fyki
baráttan, lífið og hann.

Arnhildur 1988- af ljod.is

20. september 2008

Loftnet klóra himin

Eitt karlmannsrif er ekki gott stöff í heila konu.
Eftir að Guð skapaði konuna beint
varð hún betri.
Síðan er ekkert fall til
bara sakleysi
þrátt fyrir hættulegan heilann.

Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir

19. september 2008

Orðabókin

Hef alltaf haft gaman af nýyrðum. Læt hér fylgja nokkur úr orðabók Ólafsfirðinga sem ég rakst á á netinu:

Að þykkna upp: Verða ólétt
Afhenda: Höggva af hönd
Afleggjari: Maður í megrun
Baktería: Hommabar
Bálreið: Slökkviliðsbíll
Biskupstunga: Talsmaður biskups
Blaðka: Kvennkyns blaðamaður
Bleðill: Karlkyns blaðamaður
Boðberi: karlkyns sem háttar sig í boðum
Brautryðjandi: Snjóruðningstæki
Búkarest: Líkhúsið
Dragbítur: Árbítur sem hefur seinkað
Dráttarkúla: Eista
Dráttarvextir: Meðlag
Endurholdgun: Fitnar aftur eftir megrun
Frosinn og fannbarinn: Mjög stífur og þurr á manninn
Glasabarn: Barn getið á fylleríi
Gullfoss og geysir: Uppköst og niðurgangur
Hangikjöt: Afslappað typpi
Heimskautafari: Tryggur eiginmaður
Hleypa brúnum: Kúka
Kommúnistafundur í kjallaranum: Blæðingar kvenna
Kúlulegur: Feitur
Kviðlingur: Fóstur
Meðalmaður: Lyfsali
Meinloka: Plástur
Nábýli: Kirkjugarður
Neitandi: Bankastjóri
Neyðarkall: Björgunarsveitarmaður
Skautbúningur: Næríur
Skipta sköpum: Kynskiptiaðgerð
Tannstönglakviðfylli: Pinnamatur
Undirbúningur: Nærföt
upphlutur: Brjóstahaldari
Úrhellir: Kanna
Útvarpsmaður: Dyravörður
Viðbjóður: Afgreiðslumaður í timburverlsun
Vindlingur: Veðurfræðingur
Öryrki: Sá sem er fljótur að yrkja
Öskureið: Ruslabíll

18. september 2008

Tarte Tatin

Þessa frönsku eplaköku langar mig í.

17. september 2008

Haustvindurinn

Haustvindurinn leikur sér í kvöld,
við laufin sem dansa villtan dans í nóttinni.
Ég sit hljóður í þögninni og hugsa
um fiðrildið sem flögraði eitt augnablik inn í líf mitt í dag.
Skyldi það hafa breyst í prinsessu.
sem dansar í kvöld í haustvindinum.

Viðar Kristinsson
1960- af ljod.is


Í tilefni af rokinu sem gekk yfir landið sl. nótt.

15. september 2008

Café Retro

Ég kynntist konu nýlega. Nú býr hún reglulega til expresso kaffi fyrir mig. Besta kaffi sem ég hef fengið. Hún fylgir stöðlum Expressostofnunarinnar út í ystu æsar:
Kaffibollinn skal lagaður undir 9 kg þrýstingi, úr 7 gr af möluðu kaffi frá viðurkenndum kaffiframleiðanda og lögunin á að taka 25 sekúndur!

Haustverkin

Í haust týndi ég sólber og stikkilsber í garðinum mínum og fékk aðstoð systur minnar við að útbúa dýrindishlaup. Í dag fékk ég svo að smakka chilli-paprikku hlaup/mauk sem mér líkaði stórvel og þarf að að útbúa við tækifæri. Læt uppskriftina fylgja hér:
Chili-papriku sulta:

4 stk. stórar rauðar paprikur
5-6 stk. ferskur rauður chilipipar (fræhreinsaður)
1 kg sykur
1 ½ bolli borðedik
5 tsk. sultuhleypir (Melatín).

Maukið paprikurnar og chilipiparinn í matvinnsluvél (eða saxið mjög smátt). Sjóðið maukið með borðedikinu og sykrinum í 20 mín.
Setjið síðan sultuhleypinn út í og sjóðið í 2 mínútur í viðbót.

Gerir ca. 1,3 l af sultu.

Hráefniskostnaður (Bónus) um 500 kr. (m.v. erlenda papriku).

2. september 2008

Ástfangið hjarta

Sem lífsins versta hatur
og heimsins versta stríð,
svo ljúft og yndisfagurt,
svo friðsælt alla tíð,
sem næturmyrkrið svartast
og svarin vetrarhríð,
sem guðdómlegur söngur
og sumarnóttin blíð

það unir sér við vatnið
svo undurkyrrt og tært
í lífsins dimmu veröld
ljós þess blikar skært.
Aðgát skaltu hafa
um allt sem því er kært
því ástfangið hjarta
verður auðveldlega sært.


Ljóð þetta er af ljóðavefnum ljod.is og er eftir ungan höfund:

Steindór D
1987-

ágúst '08