28. október 2007

Arfur frá móður

Undarlegt að engir vita
upphaf líkams varma mannsins:
einungis frá okkar móður
erfðalínur fornar rita

Líta jörðu grös og gróður
græna - strax og vorið kemur
strax og lífið ljósið nemur;
erfist þetta allt frá móður

allt hvað mæður góðar gjörðu
- gjöldum þakkir öllu fremur:
allur varmi okkur borinn
allur litur grænn á jörðu

(Erfðaefni hvatbera erfist einungis frá móður; á hvatberum byggist líkamsvarminn; eins er erfðaefni grænukorna einungi frá móðurjurtinni, þau nema ljósið; af þeim verður jörð græn).


Þetta ljóð er í nýútkominni ljóðabók Valgarðs Egilssonar; Á mörkum. Hann kenndi mér bragfræði þegar ég byrjaði að feta þann hála stíg að yrkja og las yfir fyrstu ljóðin (og leiðrétti eins og kennari stíl nemanda síns). Í staðinn fyrir ræddi ég við hann um hvatberaerfðafræði. Sátum við því löngum stundum á uppi í hesthúsi í Víðidal og skiptumst á vitneskju.

Engin ummæli: