5. júlí 2007

Að vitja nafns

Mér var boðið í heimsókn til foreldra vinkonu minnar. Þar var að góðum sið boðið upp á kaffi og góðgæti. Móðir hennar vildi spjalla við mig í eldhúsinu og settumst við þar í stutta stund og þegar erindið hafði verið borið upp og rætt, spjölluðum við aðeins um daginn og veginn. Svo sagði hún "veistu hvernig nafn dóttur minnar er tilkomið". Ég svaraði því neitandi, en bætti við. "Það er mjög fallegt og fer henni vel". Þá sagði hún mér þessa merkilegu sögu. Þetta er nafn frænku mannsins míns, föður vinkonu þinnar. Hann var alltaf í miklu uppáhaldi hjá henni sem barn og á milli þeirra var mikill vinskapur og traust. Ég vona að þið varðveitið það í fjölskyldunni. Hmmm sagði ég og fátt fleira. Sá stríðni glampa í augum hennar.
Frænkan dó tæplega fimmtug, kannski á þínum aldri. Hún hafði verið skýrð í höfuðið á kærustu föður hennar, sem hafi dáið af slysförum ung að aldri. Þegar hann kynntist móður frænkunnar varð það úr að þau skýrðu sitt fyrsta stúlkubarn höfuð kærstunnar og það sem meira var, þau tóku að sér móður kærustunnar látnu sem nú var orðin einstæðingur og bjó hún hjá þeim upp frá því til dauða dags. Mér varð á orði að sjaldan sæji maður í dag slíkan kærleik í verki og ræktarsemi við minningu einhvers sem maður hafði elskað. En hvernig stóð á því að þið skýrðuð dóttur ykkar í höfuðið á þessum tveim konum, ungu konunni sem dó af slysförum og frænkunni sem dó fyrir aldur fram. Margir hefðu valið annað nafn. Vitjuðu þær nafns í draumi?
Nei svo var ekki. Þegar ég var orðin ófrísk af dóttur minni, vinkonu þinni þá sat ég oft og prjónaði eða saumaði og beint á móti sófanum sem ég sat í var málverk af fræknu mannsins míns og þegar ég leit upp frá störfum sá ég að augun í málverkinu voru lifandi og horfðu á mig. Svona var þetta í nokkurn tíma. Að lokum rann upp fyrir mér ljós og ég sagði stundarhátt. Ef þetta verður stúlka skal ég skýra hana í höfuðið á þér. Eftir það sat ég alltaf í stól undir myndinni og sá því ekki augun þegar ég leit upp. Síðan fæddist stúlkan og ég stóð við orð mín. Eftir það hef ég oft horft á þetta málverk og augun í því eru eins og í hverju öðru málverki. Þannig vitjaði hún nafns.

Engin ummæli: