9. júlí 2007

Rós án þyrna

Hvað er hægt að gera um helgi bundinn í báða skó á vaktinni. Undanfarnar helgar hef ég dvalið utanbæjar, en nú sat ég heima. Föstudagskvöldið fór í að taka á móti nýju ástinni í lífi mínu, sem hafði ætlað að koma kvöldinu áður en lenti þá í hremmingum og slysi um hábjartan daginn. Á laugardagmorgni fór ég í bæinn og fékk mér kaffitár og krósants gekk upp Laugaveginn. Fór síðdegis í kaffi til Önnu frænku minnar á elliheimilið en hún er nýlega orðin 92 ára. Áður brá ég mér á prúttmarkað hjá Ömmu Rut í Skipholti og keypti postulínsbolla, -bláa blómið frá konunglegu dönsku postulínsversluninni. Keypti sitt lítið af hverju, tebolla, kaffibolla, og súkkulaðibolla undirskálar og diska. Fór svo heim og dundaði við baðherbergið sem er að byrja að taka á sig mynd á ný. Fékk síðan góðan gest síðdegis sem vígði með mér tebollana, eftir að hafa kynnt fyrir henni nýju ástina mína. Fékk eitt símtal af vaktinni.

Á sunnudag átti ég leið um Laugardalinn, fór á safnadegi í Ásmundarsafn og sé að ég þarf að byrja að rafsjóða aftur. Kaffi í grasagarðinum og röskur göngutúr um dalinn og skoðaði trjásafnið. Komst að því að reynir er af rósaætt.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvaa fórstu í ömmu Ruth og tókst mig ekki með það er sem ég segi "alltaf útundan" næsta laugardag förum við saman þangað og þú kennir mér að prútta,þar eru hlutir sem ég þarf að fá bráðnauðsynlega á móti get ég kannski tjónkað við nýustu ástina þína og siðað hana til. Besta og eina systir þín

Nafnlaus sagði...

Sjáum hvað setur systir. Frænka okkar á Ömmu Rut. Ég kann ekki að prútta, henni fannst ég svo aumkunarlegur í þessu að hún hálfgaf mér jafnmarga bolla og ég hafði keypt. En hver er að verða síðastur því bráðum lokar búðin.

Það veitir nú ekki af að þú siðir þá nýjustu. Annars hef ég ekki yfir neinu að kvarta. Hún tekur af mér fötin og sinnir öllum mínum þörfum. Hvort sem ég vil það heitt eða kallt, hratt eða hægt. Bara nefna það. Í gærkveldi var það einn snöggur, en svo fékk hún einn langan í nótt á meðan ég svaf.