2. júlí 2007

Góða veislu gjöra skal

Eyddi laugardeginum í Ljósheimum við að planta og flutti hesta að Rangárbökkum. Var í 19 stiga hita í Ljósheimum. Keyrði upp Ljósheima boulevard eins og þúfnatroðningurinn heitir sem liggur um landið.

Plantaði ölnum, þrem lindifurum og tveim þöllum. Stækkaði Þórslund. Gleymdi mér í sólinni og rankaði við mér e. 4 tíma enda í frábærum félagsskap og átt þá eftir að flytja hestana yfir að Rangá. Varð fyrst að fara að Bolholti og ná í hestakerru. Eftir tlasvert stapp náði í ég í hestana. Frá þeim atburðum verður sagt síðar.

Kom að Rangá um kl 22.30 og setti hesta á heimatúnið og fór með kerruna að Bolholti. Var orðin sæmilega vinnumannslegur þegar þessu var lokið og sá að varla væri ég hæfur til að "líta við á eftir" hjá húsráðendum í veislu sem þar var í tilefni 50 ára afmæli bóndans og húsbóndans, eins og það var orðað þegar kom til að láta vita af mér fyrr um kvöldið. Ákvað nú samt að hringja og láta vita að ég hefði lokið erindum og biðja um kveðja til afmælisbarnsins, en þá var ekki við annað komandi enn að ég liti við. "Annað væri kjánalegt" var mér tjáð og þar sem mannasiðum mínum er ábótavant og samskiptaörðugleikar umfram meðaltal, þá ákvað ég að taka mark á þessu og láta sjá mig. Kasta kveðju á bónda og frú hans en stoppa ekkert. Til vonar og vara skipti ég um skó og fór í svarta blankskó sem ég hafði í bílnum. Reyndi að dusta grasgrænkuna af hnjánum og þvo moldina af höndunum. Fannst ég líta býsna vel út eftir það. Uppgötvaði þá að ég var í bláu uppáhaldsskyrtunni minni sem ég keypti um árið, eða á síðasta áratug í GAP með kínahálsmáli og mér hefur verið bannað að nota innan um fólk vegna slits, -sérstaklega trosnaðra erma. Þar sem ég reyni nú að fara eftir etiketti annara í umgengi og útliti sá ég þarna stóran lapsus og til að bjarga mér þá bretti ég upp ermarnar og huldi þannig skömmina. Sveipaði svo um mig brúnu flísvesti til að hylja moldarskellurnar á bringunni. Gekk síðan að útidyrum heldur hikandi því hégóminn um útlit getur verið nagandi. Til dyra kom afmælisbarnið og viti menn. Mér til mikillar léttis þá var hann í lopapeysu og þegar ég leit yfir öxlina á honum sá ég til veislugesta úti á palli þar sem flestir voru í þykkum peysum og margir í gallabuxum. Ég smellpassaði í félgasskapinn. Það sem ég hafði uppfram aðra var "touch of style" með örlitlum grænum sétteringum á hnjánum. Þáði ég svo lambakjöt af heimaslátruðu, sem er og ég fullyrði besta kjöt sem ég hef borðað í háa herrans tíð. Fékk svo þrusugóðar hnallþórur á eftir og öll áform um að stoppa stutt fuku út í rangeysk loftið og liðust niður ána í náttkyrrðinni, sem reyndar var ekki svo mikil á þessum bæ. Varð þó fremur svara fátt þegar gestir í lopapeysum spurðu hvort mér væri ekki kalt að vera svona með uppbrettar ermar!

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

GÓÐUR!!!!! baaa