21. júlí 2007

Ferðin hafinn

Loksins hefst sumarleyfisferðin. Í morgun fóru hestar á bíl og eru á leið norður á Leirhöfn á Melrakkasléttu. Á morgun fer ég á eftir. Þá verður lunch á Halastjörnunni í Öxnardal. Vonandi kaffi í Vinaminni á Akureyri ef húsráðendur ná ekki að hlaupa í skjól. Kvöldmatur í Leirhöfn.

Ljóð dagsins 21.júlí

á í dag ljóð dagsins á Ljóð.is. Fjallar um eðlis- og stjarnfræði.

Geisleindin snýst í baugum
um rás hins bjarta,
þyngdar sinnar virði í afli.

Í bogaljósinu
sem hvorki á upphaf né endi.
er aðeins ljómi í hring.

Í rökkurfjarlægð
leynast sogandi svarthol
falin milli skínandi agna
og kalla allt að ljósavík bak látur.

12. júlí 2007

Erlebnisreisen

Þá styttist í sumarfríið og hestaferð ársins sem að þessu sinni verður um Norður-Þingeyjarsýslu. Melrakkasléttu, Þistilfjörð, Þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum, Þeistareyki og Laugar í Reykjadal.

11. júlí 2007

Bésame

Kossinn þinn heitan,
kysstu mig, kysstu mig oft
ef kveðjumst í dag
vonin í hjarta mér deyr
aldrei við snertumst á ný.

Augun þín djúpblá
kom, kom þú nær mér í kvöld
í djúpinu speglar
speglast í augunum ást
á morgun ég söknuðinn ber

Í húmi ég kveð
mitt hinsta og fegursta ljóð
handa þér einni
hræðist ei söknuðinn meir
ef kyssir, kyssir þú mig

Ást, haltu mér fast
við faðminn þinn þétt í nótt
fjarlægðin heilsar
ekkert ég þekki svo sárt
augun þín hverfa á braut.

Kysstu mig lengi
í draumum komdu til mín
geymdu í augum
spegilmynd ástar sem dó
aftur mig vektu til lífs.


tanka nr. 15.

9. júlí 2007

Rós án þyrna

Hvað er hægt að gera um helgi bundinn í báða skó á vaktinni. Undanfarnar helgar hef ég dvalið utanbæjar, en nú sat ég heima. Föstudagskvöldið fór í að taka á móti nýju ástinni í lífi mínu, sem hafði ætlað að koma kvöldinu áður en lenti þá í hremmingum og slysi um hábjartan daginn. Á laugardagmorgni fór ég í bæinn og fékk mér kaffitár og krósants gekk upp Laugaveginn. Fór síðdegis í kaffi til Önnu frænku minnar á elliheimilið en hún er nýlega orðin 92 ára. Áður brá ég mér á prúttmarkað hjá Ömmu Rut í Skipholti og keypti postulínsbolla, -bláa blómið frá konunglegu dönsku postulínsversluninni. Keypti sitt lítið af hverju, tebolla, kaffibolla, og súkkulaðibolla undirskálar og diska. Fór svo heim og dundaði við baðherbergið sem er að byrja að taka á sig mynd á ný. Fékk síðan góðan gest síðdegis sem vígði með mér tebollana, eftir að hafa kynnt fyrir henni nýju ástina mína. Fékk eitt símtal af vaktinni.

Á sunnudag átti ég leið um Laugardalinn, fór á safnadegi í Ásmundarsafn og sé að ég þarf að byrja að rafsjóða aftur. Kaffi í grasagarðinum og röskur göngutúr um dalinn og skoðaði trjásafnið. Komst að því að reynir er af rósaætt.

6. júlí 2007

Hrannast upp óveðursský

Myndin er úr vefmyndavél á þaki Veðurstofunnar.

5. júlí 2007

Að vitja nafns

Mér var boðið í heimsókn til foreldra vinkonu minnar. Þar var að góðum sið boðið upp á kaffi og góðgæti. Móðir hennar vildi spjalla við mig í eldhúsinu og settumst við þar í stutta stund og þegar erindið hafði verið borið upp og rætt, spjölluðum við aðeins um daginn og veginn. Svo sagði hún "veistu hvernig nafn dóttur minnar er tilkomið". Ég svaraði því neitandi, en bætti við. "Það er mjög fallegt og fer henni vel". Þá sagði hún mér þessa merkilegu sögu. Þetta er nafn frænku mannsins míns, föður vinkonu þinnar. Hann var alltaf í miklu uppáhaldi hjá henni sem barn og á milli þeirra var mikill vinskapur og traust. Ég vona að þið varðveitið það í fjölskyldunni. Hmmm sagði ég og fátt fleira. Sá stríðni glampa í augum hennar.
Frænkan dó tæplega fimmtug, kannski á þínum aldri. Hún hafði verið skýrð í höfuðið á kærustu föður hennar, sem hafi dáið af slysförum ung að aldri. Þegar hann kynntist móður frænkunnar varð það úr að þau skýrðu sitt fyrsta stúlkubarn höfuð kærstunnar og það sem meira var, þau tóku að sér móður kærustunnar látnu sem nú var orðin einstæðingur og bjó hún hjá þeim upp frá því til dauða dags. Mér varð á orði að sjaldan sæji maður í dag slíkan kærleik í verki og ræktarsemi við minningu einhvers sem maður hafði elskað. En hvernig stóð á því að þið skýrðuð dóttur ykkar í höfuðið á þessum tveim konum, ungu konunni sem dó af slysförum og frænkunni sem dó fyrir aldur fram. Margir hefðu valið annað nafn. Vitjuðu þær nafns í draumi?
Nei svo var ekki. Þegar ég var orðin ófrísk af dóttur minni, vinkonu þinni þá sat ég oft og prjónaði eða saumaði og beint á móti sófanum sem ég sat í var málverk af fræknu mannsins míns og þegar ég leit upp frá störfum sá ég að augun í málverkinu voru lifandi og horfðu á mig. Svona var þetta í nokkurn tíma. Að lokum rann upp fyrir mér ljós og ég sagði stundarhátt. Ef þetta verður stúlka skal ég skýra hana í höfuðið á þér. Eftir það sat ég alltaf í stól undir myndinni og sá því ekki augun þegar ég leit upp. Síðan fæddist stúlkan og ég stóð við orð mín. Eftir það hef ég oft horft á þetta málverk og augun í því eru eins og í hverju öðru málverki. Þannig vitjaði hún nafns.

3. júlí 2007

Forn-germanskt uppeldi

Var að lesa viðtal við Valgarð Egilsson í læknablaðinu. Þar má finna eftirfarandi.
"Valgarður er fæddur á Grenivík árið 1940 og alinn upp að eigin sögn á "forn-germanskan hátt". Hvað felst í því?
"Að vera utanhústegund og ekki vanur stofuhita í híbýlum. Vera sífellt vakandi fyrir náttúrunni og eiga allt undir henni. Fylgjast vel með veðrabrigðum og kunna að lesa úr skýjafari. Ef maður sá þoku safnast í Hvanndalabjörgin þá vissi maður að vindur var að koma að norðaustan og eins gott að safna fénu saman. Það er ansi fjarri uppeldisaðferðum í þéttbýli nútímans að vera strax 8-9 ára gamall orðinn ábyrgur fyrir hjörð heimilisins. Þá er maður að gá til veðurs oft á dag og skynjar allt umhverfið útfrá því...."
Læknablaðið 2007, 6, 500-501.

2. júlí 2007

Askur

Fór snemma á fætur á sunnudagsmorngi og fékk þá góðu hugmynd að hringja í skógfræðinginn vin minn og bjóða á hestbak, enda haft talsvert fyrir að flytja hesta í nýja haga kvöldið áður. Viti menn hann var aldeilis til í það. Reyndar bauð ég honum að koma og skoða skógræktina í Bolholti og þegar hann var búinn að jánka því nefndi ég í framhjáhlaupi að ég gæti skotið undir okkur hestum til að geta séð meira og fleiri tré. Hann þáði það. Á leiðinni komum við við hjá Ingbjörgu í gróðrarstöð Ingibjargar í Hveragerði, því við það myndi lund hans léttast enn meir. Skoðuðum framboð af trjám og þar beið okkar líka þessi fallegi og mannhæða hái askur, sem skógfræðingur heimtaði að kaupa og færa mér. Sagði mig vanta fórnartré í Ljósheima. Nokkuð gekk erfiðlega að slíta skógfræðinginn fá Ingibjörgu og föngulegri dóttur hennar enda þær vel spjallfærar um kynlíf íleusa, sem ég komst að seint og um síðir væri svokallaður kristþyrnir. Hafði skógfræðingurinn nýlega keypt bæði karl og kventré á þessum stað og flutt í garðinn sinn og beið nú eftir að upphæfis vilt kynlíf þessa trjápars og úr yrðu rauð ber. En til þess þurfti flugur. Ég skaut inn í að þetta væri svona eitthvað í líkingu við cybersex sem nú tíðkast á ýmsum spjallsíðum þar sem stundað er fjarkynlíf í gegnum eða með hjálp tölva.

Við Rangá beisluðum við tvo hesta. Ég hafði leyfi á Glóa og við hæfi var að ég skyti undir skógfræðinginn góðhryssunni Skuld. Vonaði þó að hún hefði ekki veruleg áhrif á örlög hans amk ekki þennan daginn. Riðum um héraðið og vitnuðum í Njálu. Skoðuðum tjálundi og dáðumst af stafafurum. Drukku kaffi og höfðum dýrmætan vinnutíma af Bolhyltingum.

Síðla dags fórum við og í Ljósheima og drifum okkur upp Ljósheimaboulevard í lága drifinu. Plöntuðum Asknum við hlið frjósemisjurtarinnar valhumals. Helguðum fórnarreitinn í Þórslundi og skipulögðum vatnsveitu.

Góða veislu gjöra skal

Eyddi laugardeginum í Ljósheimum við að planta og flutti hesta að Rangárbökkum. Var í 19 stiga hita í Ljósheimum. Keyrði upp Ljósheima boulevard eins og þúfnatroðningurinn heitir sem liggur um landið.

Plantaði ölnum, þrem lindifurum og tveim þöllum. Stækkaði Þórslund. Gleymdi mér í sólinni og rankaði við mér e. 4 tíma enda í frábærum félagsskap og átt þá eftir að flytja hestana yfir að Rangá. Varð fyrst að fara að Bolholti og ná í hestakerru. Eftir tlasvert stapp náði í ég í hestana. Frá þeim atburðum verður sagt síðar.

Kom að Rangá um kl 22.30 og setti hesta á heimatúnið og fór með kerruna að Bolholti. Var orðin sæmilega vinnumannslegur þegar þessu var lokið og sá að varla væri ég hæfur til að "líta við á eftir" hjá húsráðendum í veislu sem þar var í tilefni 50 ára afmæli bóndans og húsbóndans, eins og það var orðað þegar kom til að láta vita af mér fyrr um kvöldið. Ákvað nú samt að hringja og láta vita að ég hefði lokið erindum og biðja um kveðja til afmælisbarnsins, en þá var ekki við annað komandi enn að ég liti við. "Annað væri kjánalegt" var mér tjáð og þar sem mannasiðum mínum er ábótavant og samskiptaörðugleikar umfram meðaltal, þá ákvað ég að taka mark á þessu og láta sjá mig. Kasta kveðju á bónda og frú hans en stoppa ekkert. Til vonar og vara skipti ég um skó og fór í svarta blankskó sem ég hafði í bílnum. Reyndi að dusta grasgrænkuna af hnjánum og þvo moldina af höndunum. Fannst ég líta býsna vel út eftir það. Uppgötvaði þá að ég var í bláu uppáhaldsskyrtunni minni sem ég keypti um árið, eða á síðasta áratug í GAP með kínahálsmáli og mér hefur verið bannað að nota innan um fólk vegna slits, -sérstaklega trosnaðra erma. Þar sem ég reyni nú að fara eftir etiketti annara í umgengi og útliti sá ég þarna stóran lapsus og til að bjarga mér þá bretti ég upp ermarnar og huldi þannig skömmina. Sveipaði svo um mig brúnu flísvesti til að hylja moldarskellurnar á bringunni. Gekk síðan að útidyrum heldur hikandi því hégóminn um útlit getur verið nagandi. Til dyra kom afmælisbarnið og viti menn. Mér til mikillar léttis þá var hann í lopapeysu og þegar ég leit yfir öxlina á honum sá ég til veislugesta úti á palli þar sem flestir voru í þykkum peysum og margir í gallabuxum. Ég smellpassaði í félgasskapinn. Það sem ég hafði uppfram aðra var "touch of style" með örlitlum grænum sétteringum á hnjánum. Þáði ég svo lambakjöt af heimaslátruðu, sem er og ég fullyrði besta kjöt sem ég hef borðað í háa herrans tíð. Fékk svo þrusugóðar hnallþórur á eftir og öll áform um að stoppa stutt fuku út í rangeysk loftið og liðust niður ána í náttkyrrðinni, sem reyndar var ekki svo mikil á þessum bæ. Varð þó fremur svara fátt þegar gestir í lopapeysum spurðu hvort mér væri ekki kalt að vera svona með uppbrettar ermar!