Með rykkjum og skrykkjum er heilsan að byrja að skríða saman. Á föstudag var risið lágt og við rúmið dvalið. Hélt ég myndi hressast eftir að ég fór að lesa Sólskinshest eftir Steinunni Sigurðardóttur. Á laugardagsmorgni var ég bjartsýnni en ég hafði verið marga undanfarna daga. Dreif í mig á fætur og ákvað að skreppa í hesthús og heilsa félögum mínum, sem eru í mínu lífi hálfgerðir sólskinshestar. En þar dvaldi ég ekki lengi. Hitti vina mína en kvaddi eftir 10 mínútna dvöld enda þá strax farinn að svitna og kominn með hroll. Ætli þetta heiti ekki að slá niður. Kom heim um hádegi og fór beint í rúmið og svaf langt fram að kvöldmat. Rétt náði sjónvarpsheilsu en ekki meira en það. Reiknaði ekki með að ná heilsu nokkru sinni aftur þegar ég gekk til náða um kvöldið.
Á sunnudagsmorgni hringdi svo Finnur í mig og sagðist tilbúinn að ná í hesta austur á Rangárvelli, hvort ég væri ekki kominn til heilsu. Í svefnrofunum, um kl 11.00, jánkaði ég bættri heilsu og hugði á augabragði að annað hvort lifði ég það af að sjá hesta í haga ella dræpist úr farsótt. Þá væri best að gera það í "guðsgrænni" náttúrinni. Á köldum mel. Ég dreif mig því hóstandi af stað. Als óétinn enda mátti engan tíma missa, hvað þá undirbúa slíka skyndiferð. Stundum verður maður að taka ákvörðun á staðnum! Föruneytið var gott Fanney kom líka og Úlfur hestamaður, tveggja ára, afa strákur og ömmu. Við hin fjögur fræknu drifum okkur á austur að Kaldbak og smöluðum hestum í gerði. Greiðlega gekk að ná Illuga hans Finns en aðeins meira bras að handsama Greifa minn. Hann lét sig þó blessaður. Eftir að ég hafði hangið í faxinu á honum í æsilegri viðureign, sem hver farsóttargemlingur getur verið stoltur af. Báðir voru settir vandræðalaust á kerru. Greifi streittist þó á móti og ætlaði ég að gefa honum mola, til að mýkja hann og róa að laða að mér. Þá glumdi í Finni, ætlarðu að verðlauna óþekktina í hestinum. Það þykir ekki góð uppeldisaðferð, en allmikið notuð, að reyna að mýkja börn upp í fýluköstum með því að gefa þeim nammi.
Jæja. Hann Greifi minn fékk ekki nammi fyrr en hann var kominn inn í kerruna. Þá andaði ég léttar, og hóstaði reyndar líka. Fann hvernig hreina loftið lék um lungnapípurnar og ég hresstist við. Hér skyldi ég ekki bera beinin, -heldur hressast. Ný lyftist andinn upp undir Heklu sem gnæfir við sjóndeildarhring. En fleira átti eftir að lyftast. Því í gerðinu biðu nokkrir fleiri hestar. Þar á meðal hinn glófexti gæðingur minn Hálfmáni. Ég ákvað að heilsa upp á hann. Aðeins að láta hann venjast því að vera tekinn og handfjatlaður. En Hálfmáni var ekki á sama máli. Stökk til og hljóp á milli horna. Faxið og taglið sveifluðust í vetrarsólinni og af lýsti. Sólskinshestur. Loks króaði ég hann af í horni einu. En þá tók hann sig til. Lyfti sér til flugs, bringan lenti á efsta plankanum í gerðinu. Brothljóð og plankinn brotnaði og yfir sveif hesturinn. Vá heyrðist úr horni. Hálfmáni hljóp út frelsið. Er það í annað sinn sem ég sé hann fara yfir hestagerði í fullri hæð. Mikill er krafturinn. Það verður gaman að ríða honum einn daginn.
Heimferð gekk vel. Alveg að óskum. Vinir mínir þó dulítið miður sín vegna válegra tíðinda sem ég færði þeim. Stundum er lífið miskunarlaust.
Heima í hesthúsi gekk allt eins og í sögu. Ég sat yfir hestum fram eftir degi. Vildi sjá að Greifi aðalagaðist nýjum heimkynnum. Hann hefur gengið í Haga með Hófi og Glóa svo ég átti ekki von á vandræðum. En þó er allur varinn góður. Enda gott að hugsa í hesthúsum. Heim kominn var ég hálfuppgefinn eftir daginn. Hafði varla heilsu í meira. Bjóst varla við að komast í vinnu daginn eftir. Á mánudagsmorgni.
Á mánudegi gekk óveður yfir og rykkti og skrykkti í landinu öllu. Jarðskjálfti í Krísuvík. Enn ein krísan hugsaði ég. Það er aldeilis að náttúruöflin senda manni skeytin. Allt er tengt í intergalaxíunnar strengjasveit. Gjörningaveður þegar ég kom í hesthúsið. Útburðarvæl í þakrennum. Vindhvinur og strengir fram hjá húsum. Rigningasuddi og slydda. Napurt er vælið. Hestarnir órólegir í gerðinu. Mikil læti í þeim blessuðum. Þeir skilja hugsaði ég. Þeir skilja. Það skiptast á skin og skúrir. Jafnvel hjá sólskinshestum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Náðist Hálfmáni?
Halur
Nei Hálfmáni nýtur en frelsisins.
R
Vonandi engin váleg tíðindi af fjölskyldunni?
Skrifa ummæli