30. desember 2004

Maður ársins.

Frændi minn einn norður í landi skrafar á netið (lapsus linguae), og er fyrirmynd mín í því sem og svo mörgu öðru. Hann telur brýnt að maður ársins verði valinn og telur að þar þurfi hver og einn að líta í eiginn barm. En í mínum hug komu aðeins tveir menn til greina. Hestamaðurinn og veiðimaðurinn. En eftir nokkra yfirlegu og kynni mín af þessum, um margt svo ólíku manntegundum er ekki nokkur vafi á því að maður ársins er að sjálfsögðu Veiðimaðurinn, hinn eini og sanni. Sendi í því tilefni, frænda mínum hið fornkveðna, en svo telst allt sem ort er fyrir miðja síðustu öld. Hefði viljað senda eitthvað frumort en það allt leirburður eins annað sem frá mér kemur og alþjóð veit eða mun náttúrulega komast að þótt síðar verði.
Vona að minn þröngi lesendahópur eigi friðsæl áramót og takið árinu 2005 af æðruleysi þinn


VEIÐIMANNAVÍSUR

Það vorar fyrr en varir
Og vonir hefja flug
Er fannir fer að leysa,
menn fyllast veiðihug.
Veiðimenn eru enn
Ekki af baki dottnir,
og fyrr en varir fram á heiðar þotnir.

Þá verður veruleiki
að vaða elg og streng,
og stoltir menn með stengur
þá standa vart í keng.
Veiðimenn eru enn
alltaf borubrattir,
en standa stundum nokkuð fattir.

En kalt er fram til fjalla
og fremur rysjótt tíð,
þó reynast raunabætur,
ef ráðskonan er blíð.
Veiðimenn eiga enn
eld, sem naumast dvínar,
Oo einnig fyrir eiginkonur sínar.

Og oft er um það talað
að aftni liðins dags,
hve kænlega var kastað,
þó kræktist ekki í lax.
Veiðimenn eru enn
ei til sagna tregir,
og eins og gengur: undurfurðulegir.

En eins og sögur sanna
og sérhver maður veit,
sá lax var aldrei léttur,
sem línu og girni sleit.
Veiðimenn víða enn
væna drætti hreppa,
þótt stundum vilji happ úr hendi sleppa.

Í vitund veiðimanna
er vertíð ár og síð,
því stríðið við hinn Stóra,
það stendur alla tíð.
Veiðimenn eru enn
elju og kappi gæddir.
Er furða þó að fiskar verði hræddir?

Guðmundur Sigurðsson.
Úr bókinni Dýrt spaug. Heimslystavísur og hermiljóð
Helgafell 1962.

Engin ummæli: