10. nóvember 2008

Eldað með hægum takti

Var með fólk í mat um helgina. Reyndi við sósugerð sem ég hef almennt skelfst um daganna og komið á aðra, t.d. eldri son minn sem er snillingur í þeim fræðum. Í þetta sinn var uppistaðan sveskjur og sveskjusoð, nokkuð sem ég hef reynt áður en nú í nýjum búningi. Fylgdi ég leiðbeiningum Ragnars Freys læknis en uppistaðan er úr bók Joanne Glynn - Eldað með hægum takti. Með þessu var frambornar smjörsteiktar grísalundir sem fengust á góðu verði í Bónus (þe ósteiktar), kartöflur og salat. Í eftirrétt var svo hafður ís.

Fyrst eru 15-20 sveskjur settar í pott og vatn hellt yfir, nóg til að hylja, og svo eru þær hitaðar að suðu og svo tekið af hitanum og leyft að liggja í heitu vatninu í 10 mínútur. Vatninu er svo hellt frá og lagt til hliðar þar til síðar í matargerðinni....

Hún (sósan) er gerð þannig að soð er útbúið í potti - kannski kjúklingasoð eða svínasoð (ég notaði 2 teninga svínasoðs)... svona um það bil 250 ml samtals. Næst er einn fínt skorinn laukur steiktur á pönnunni sem lundirnar voru steiktar (ekki henda fitunni sem er á pönnunni, fullt af bragði þar) og ein klípa af smjöri bætt saman við. Steikt þar til laukurinn er orðin mjúkur og þá er einu góðu glasi af hvítvíni sett á pönnuna og suðunni leyft að koma upp og soðið aðeins niður. Þá er soðinu - ca. 250 ml hellt saman við, 3 lárviðarlaufum, hálfu handfylli af fersku timian (ég notaði 1 tsk af þurrkuðu timian), og svo vatninu af sveskjunum og svo auðvitað sveskjunum sjálfum. Saltað og piprað. Þetta er svo soðið upp og leyft að sjóða niður um helming. Þá er sósan síuð og sett aftur á pönnuna og 250 ml rjóma er bætt á pönnuna. Soðin í nokkrar mínútur þar til hún fer að þykkna og þá er grísalundunum bætt aftur saman við og þær hitaðar í gegn.


Held þetta gæti orðið góð sósa með folaldalundum eða lambakjöti.

Bon appetite

Engin ummæli: