26. nóvember 2008

Aðventa

Ég hef ástæðu til að hlakka til aðventunnar. Skammdegisdrungi leitar alltaf á um þetta leiti og svefnþörf eykst. Svar við því er að skipuleggja skemmtilega atburði og hitta gott fólk. Hér kemur áætlun í tíu liðum:
1. Ég keypti nýja útgáfu af trivial pursuit sem verður spilað á kvöldin þegar krakkarnir koma í mat, ef þau mega vera að því fyrir próflestri þ.a.s. Þau eru svo elskuleg að koma alltaf á þriðjudögum og sunnudögum og borða með gamla karlinum og skemmta honum. Nú er hinsvegar prófstressið byrjað hjá þeim blessuðum og eina vantaði í fiskibollurnar og grjónagrautin sem ég eldaði í gær. Ekta íslenskt kvöld.

2. Á sunnudaginn verður fyrsta laufabrauðs gerðin. Hitti þá systur og systurdætur og þeirra fólk og skerum út með þar til gerðum járnum og skreytum eins og hver kann kúnst til.

3. Þann 13. desember er svo aftur laufabrauðsgerð með tveimur vinafjölskyldum, reyðarfjarðar þilskipaútgerðarmanninum og hans fólki og píanóleikaranum sem nú er orðin organisti ofan á allt annað listastúss. Þetta er orðin meira en áratugahefð og með laufabrauðsgerðinni legg ég alltaf til púrtvín og blámygluost. Lengi vel notaði ég Stilton en íslenski akureyrar gull osturinn slær honum alveg við og hef notað hann mörg ár eða ef ég dett niður á frönsk afbrigði í ostabúðinni á Bitruhálsi þá hef ég freistast til að kaupa slíkt. Í ár verður partíð hjá mér og ég hlakka til að fá líf í húsið, enda syngja og trallar allt þetta söngelska fólk og spilar af fingrum fram. Ég les gjarnan ljóð eða valdan kafla úr einhverri hnyttinni bók. Svo er alltaf endað á því að borða hangið kjöt, læri á beini sem er soðið í ofni að hætti píanóleikarans.

4. Á föstudaginn kemur förum við í leikhús. Þ.e. ég og börnin öll fjögur. Strákarnir tveir og kærustur þeirra. Mér datt það snjallræði í hug að kaupa áskriftarmiða fyrir alla fjölskylduna í Borgarleikhúsið í vetur. Það kostar ekki mikið, því þeir bjóða upp á námsmanna- og ungmenna afslátt svo miðinn kostar ekki mikið meira en að fara í bíó. Við ætlum að fara í fyrsta sinn og sjáum Fló á skinni.

5. Í desember er úr vöndu að ráða með tónleika því úrvalið er svo mikið. Ég hef haft fyrir reglu í mörg ár að fara á jólatónleika Móttettukórsins í Hallgrímskirkju og verður enginn svikinn af því. Í ár ætla ég að halda mig við það reikna ég með en er líka spenntur að fylgjast með öðru framboði enda tækifærissinni.

6. Bækur. Þær eru ómissandi og gott að grúska í eina eða tvær af jólabókunum. Ég er búinn með sólkross, gerði það á ferð minni til BNA fyrir skemmstu. Þarf nú að velja mér næstu bók, af nógu að er af taka.

7. Strákarnir á Mílanó. Ekki má gleyma þeim góðu fundum á laugardögum þegar við hittumst í hádeginu og býsnum yfir ástandinu og þykjums vera að vísindast. Þetta er orðin fastur liður í tilverunni um þessar mundir.

8. Hestar. Þeir verða teknir á hús um miðjan desember eða þar um bil. Ég stefni að því að hafa fjóra í húsi i vetur. Ekki veitir af því báðar kærustur drengjanna eru hestakonur

9. Sprikl og fjallgöngur. Ég þarf að taka mig á.

10. Já tíu, hvað er nú það. Eitthvað sem bíður í óvissunni og kemur óvænt og hressir upp á lífið.

Engin ummæli: