Með sumrinu koma nýjar annir. Öll helgin hefur farið í búskapinn.   Enginn dróg af sér við undandráttinn á föstudaginn.  Drógum 32 skeifur  undan.  Það var svolítið puð fyrir skrifstofublókina, en sumir myndu  segja að þetta hefði verið kvenmannsverk.
Á laugardag frá morgni  til kvölds var farið með hross í haga.  Smá útúrdúr var í ferðum því í  leiðinni var farið með tvær hryssur til stóðhests.  Svo vel vildi til að  um ást var við fyrstu sín hjá annarri og þeim graða.  Þau voru leidd  saman.  Hann gamall og hafði meiri áhuga á að velta sér og hún ung og  klippandi gull. Fátt minnir betur á vorið og sumarið. Merkilegt að sumir  graðir virðast verða að fá að bíta og slá í vorleikjunum. Allt tókst að  lokum og folald væntanlegt í maí á næsta ári.
Rétt náði í  blálokinn á kosningunum og og beindi spjótum að fjórflokknum. Tími  kominn til að endurreisa lýðveldið og minnast svikinna loforða úr  síðustu alþingiskosningum.
Hneykslaðist á rætni íslenska  þularins í samevrópsku söngvakeppninni. Skil ekki af hverju þessi maður  er sendur ár eftir ár til þess eins að hallmæla öðrum keppendum og reyna  að slá sig til riddara með aulabröndurum í garð annarra þjóða. Sér  ekkert nema samsæri annarra sem ekki skilja mikilfengleik þess íslenska.   Eitthvað sem minnir óneitanlega á 2007. Summerar upp vandamálið sem  við stöndum enn frammi fyrir.  Vona að Ísland geti státað af öðrum í  framtíðinni.  Þessi haus mætti fjúka.
Allur sunnudagurinn fór í  flutninga á hestum í haga og ekki var dagurinn styttri. Mikill fögnuður  og rassaköst. Fyrst hlaupið í vestur, svo í suður, austur og loks í  norður og vatnskerið kannað.  Allt á sínum stað.  Hreykt sér á hæsta  hól.  Loks komið glaðlega til baka og þakkað frelsið.  Eitt loka klapp á  ennið og svo rokið aftur út í buskann. Sjáumst í haust.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
 
 
1 ummæli:
Þetta hefur verið mögnuð helgi hjá þér bróðir sys
Skrifa ummæli