Fyrst er að telja að ég fylgdi einum besta vini mínum til grafar í síðustu viku. Aðeins 43 ára gömlum. Við vorum mikið saman í hestum. Deildum hesthúsi í 6 eða 7 ár. Höfðum ferðast víðsvegar um landið á hestbaki. Farið í sleppitúra. Hann útvegaði mér bestu hestana mína. Hann tamdi þá sjálfur. Saman áttum við skemmtilegar ferðir norður í Skagafjörð í Laufskálarétt, þar kenndi hann mér að lesa í fótaburð efnilegra tryppa. Á Þingvöllum drukkum við bjór og sögðum sögur af ævintýrum dagsins. Upp við Stöng biðum við spenntir eftir að sjá hvort færi gæfist á að ríða yfir Nautavað í Þjórsá. Að Fjallabaki þeystum við um grundir. Á Löngufjörum sundriðum við ála og sprettum úr spori. Í jarðarför hans var flutt ljóð Davíðs Stefánssonar. Þar var sungið:
Ég heyri álengdar hófadyninn,
ég horfi langt á eftir þér.
Það var við hæfi. Þannig líður mér. Blessuð sé minning Ólafs Eiðs Ólafssonar.
3 ummæli:
Til hamingju með stórafmælið.
Ég googlaði hann pabba minn, og rakst á þessa síðu fyrir vikið, flott ummæli og gaman að lesa. Kveðja Eva Hrund, dóttir Óla.
Fallega skrifað hjá þér Reynir og gott að lesa fyrir okkur sem söknum hans svo sárt. Kveðja Líney
Skrifa ummæli