24. janúar 2009

Í tilefni dagsins


Maðurinn sem sagðist vita allt

Kæru vinir, nú er að því komið!
Kallaði maðurinn sem sagðist vita allt.
Og við hin horfðum á hann
skilningssljóum augum.

Hvað áttu við? Spurði hugrakkasti drengur allra drengja.
Að hverju er komið?
Endi alls, svaraði maðurinn sem sagðist vita allt.

Og við settumst öll saman niður og biðum eftir dauðanum.

Björt1988-


Þetta er ljóð dagsins í dag á ljod.is

14. janúar 2009

Fjörfiskur og ilmur jarðarinnar

Vikulegur þriðjudagsfiskréttur var borinn fram fyrir fjölskylduna. Í þetta sinn skyndibiti. Var a vinna til rúmlega sex og missti af því að komast í fiskbúð. Það er svona þegar verkefnin eru orðin mörg og krefjandi. Spennandi tímar í vinnu og einkalífi.

Nú voru góð ráð dýr. Átti ég að kaupa pizzur ofan í mannskapinn og þannig gefast upp fyrir tímaleysinu. Nei það gat ekki orðið. Varð mér úti um forsteiktar fiskibollur í Krónunni, parísarkartöflur og salat og smurost. Kokkaði upp á tuttugu mínutum fiskibollurétt, bollur bakaðar í ofni, parísarkartöflur brúnaðar á pönnu og með þessu ostasósa. Blandaði saman rækju- og grænmetissmurosti og þynnti með fjörmjölk. Salat með franskri dressingu og á mettíma var komin veislumáltíð sem allir glöddust yfir á sinni hraðferð.

Eldri sonurinn svefnlaus eftir að hafa vakað yfir og tekið heilalínurit af fyrirbura og þurfti að drífa sig heim í háttinn. Sá yngri var eggjaður af kærustinni að koma í bíó á 500 kall í Sambíóunum á þriðjudögum. Ég gamli maðurinn dreif mig í hesthúsið og hleypti út vinum mínu sem voru fegnir því að fá að teygja úr sér og velta upp úr nýfallinni mjöllinni. Hitti þar Finn vin minn skeggræddum við um gleði hestamennskunar og fylgdist ég með honum gefa á garðann og fann hesthúsið fyllast af angan af heylykt - parfume de monde.

Venus í Vatnsbera


Nú er Venus í Vatnsbera og skín skært á suðuhimni. (af mbl.is). Folinn er ekki langt undan, né hvalurinn eða höfrungurinn. Skáldfákurinn hærra á lofti. Skyldi sonurinn Amor vera skammt undan?

Ísland v.2.0

Og það verður rautt.



Þetta fáið þið elskurnar mínar, -bráðum. Er að fara að kaupa það í kassavís. Kemur frá Portugal.

13. janúar 2009

Ærir í pólitík

Nú fellur mér ketill í eld. Ráðaleysi og dugleysi. Ég styð eindregið almenna og algjöra uppstokkun með stofnun annars lýðveldis þjóðarinnar með raunverulegu þingræði og aðskilnaði þings og framkvæmdavalds. Lifi byltingin.

9. janúar 2009

Arkar karlinn út í fjós,
auðgrund gömlu að finna.
Ekki þarf hann alltaf ljós
til útiverka sinna.

Höfundur:
Páll Pálsson frá Knappsstöðum í Fljótum f.1837 -
d.1871

La Vie En Rose

Furunálafreyðibað

það er kósíkvöld í kvöld

7. janúar 2009

Hvílílk djúpviska

http://vefmidlar.visir.is/VefTV/?channelID=&programID=b2fab606-e8f9-4500-a4d9-15008d8978da&mediaSourceID=4b8342d2-6d57-4144-8b62-3d3067588513

Handa íslenskri þjóð

"Allt í einu sneri herpresturinn sér að Svejk og sagði: - Kæri vinur, gefðu mér löðrung.
- Einn eða fleiri? spurði Svejk.
- Tvo.
- Gerðu svo vel.
Herpresturinn taldi upphátt löðrungana sem hann fékk, og hann var
hamingjusamur á svipinn.
- Þetta er hressandi, sagði hann. - Þetta er ágætt fyrir meltinguna. Gefðu mér einn á snúðinn ennþá.
- Hjartans þakkir, sagði hann þegar Svejk hafði afgreitt hann. - Nú líður mér vel."

Úr "Góða dátanum Svejk" eftir Jaroslav Hasek í þýðingu Karls Ísfelds.

Hrogn og lifur


og rúgbrauð; -nú er tíminn kominn. Bauð upp á það í gærkveldi og synirnir smökkuðu, dömurnar ekki eins áfjáðar.

Þrettándinn liðinn en ég ætla að halda jóladótinu fram á helgi. Líkar svo vel við ljósadýrðina.

5. janúar 2009

Dýrðlega gott

Eldaði hreindýr um jólin fyrir krakkana og mig og fór að ráðum Jóa Fel. Var meira segja í stuttermabol í eldhúsinu. Takið eftir á myndbandinu hnífnum og hitamælinum. Slíkar græjur á ég, -fékk frá alveg yndislegri konu og góðum vini. Passaði hitann mjög vel en það er lykillinn að vel heppnaðri steik.
Gerði smá breytingar á uppskriftinni. Þannig notaði ég heimalagaða stikilberjasultu í sósuna og þar sem ég átti ekkert púrtvín notaði ég hvítvín sem ég hafði opnað með humrinum á aðfangadag. Engin ástæða til að bruðla eða láta gott vín fara til spillis. Sveppi átti ég þurrkaða frá því í fyrra, -týnda í eyðimörkinni sem hefur verið breytt í skógræktargirðingu á Rangárvöllum.

2. janúar 2009

Bjart framundan

spákonan sá fjársjóð í bollanum mínum. Ég sá hann í hesthúsinu. Þar er ég nú með fjóra hesta. Hóf, Glóa, Skuld og Hálfmána. Búinn að sprauta og ormahreinsa, raspa tennur og þvo skaufa (þar sem það á við) og allt er tilbúið fyrir vertíðina. Hestamönnum eða réttara sagt konum hefur fjölgað í fjölskyldunni þannig að ég fjárfesti í tveimur notuðum hnökkum og hef nú einn á hvern hest. Þannig getur öll "fjölskyldan" farið saman á bak eða ég get boðið öðrum vinum með í útreiðar. Veturinn leggst vel í mig.

Að ríða mikið

er nýársheitið í ár. Fór í minn fyrsta reiðtúr á nýársdag, á fyrsta degi ársins, einni sekúndu síðar en ég hafði reiknað með á sl. ári. Þetta var magnþrungin stund. Ég andstuttur af spenningi og eftirvæntingu, henti mér á bak og reið um allt hverfið. Þetta var fjöldareið, nánast orgía. Með mér voru góðir félagar og vinir til margra ára. Gerði það tvisvar. Fór á mína bestu hesta.