Vikulegur þriðjudagsfiskréttur var borinn fram fyrir fjölskylduna. Í þetta sinn skyndibiti. Var a vinna til rúmlega sex og missti af því að komast í fiskbúð. Það er svona þegar verkefnin eru orðin mörg og krefjandi. Spennandi tímar í vinnu og einkalífi.
Nú voru góð ráð dýr. Átti ég að kaupa pizzur ofan í mannskapinn og þannig gefast upp fyrir tímaleysinu. Nei það gat ekki orðið. Varð mér úti um forsteiktar fiskibollur í Krónunni, parísarkartöflur og salat og smurost. Kokkaði upp á tuttugu mínutum fiskibollurétt, bollur bakaðar í ofni, parísarkartöflur brúnaðar á pönnu og með þessu ostasósa. Blandaði saman rækju- og grænmetissmurosti og þynnti með fjörmjölk. Salat með franskri dressingu og á mettíma var komin veislumáltíð sem allir glöddust yfir á sinni hraðferð.
Eldri sonurinn svefnlaus eftir að hafa vakað yfir og tekið heilalínurit af fyrirbura og þurfti að drífa sig heim í háttinn. Sá yngri var eggjaður af kærustinni að koma í bíó á 500 kall í Sambíóunum á þriðjudögum. Ég gamli maðurinn dreif mig í hesthúsið og hleypti út vinum mínu sem voru fegnir því að fá að teygja úr sér og velta upp úr nýfallinni mjöllinni. Hitti þar Finn vin minn skeggræddum við um gleði hestamennskunar og fylgdist ég með honum gefa á garðann og fann hesthúsið fyllast af angan af heylykt - parfume de monde.