20. ágúst 2007

Menningarnætur og dagar

Fór í hálendisferð með yngri syninum og dvöldum við fjarri skarkala höfuðborgarinnar frá miðvikudegi 15. til sunnudagskvölds 19 ágúst.Ferðin heppnaðist fullkomlega. Einangraðir á fjöllum tókumst við á við náttúruöflin og drengurinn fékk æfingu í að keyra hálendisvegi, keyra yfir bergvatns- og jökulár. Meta vöð, kíkja eftir brotum, athuga dýpt. Læra á háadrifið, lágadrifið og læsingar og hvað allt þetta heitir. Allt þetta kom í staðinn fyrir tölvur, gsm síma, sms, msn, myspace en þar er hann svo sannarlega fremri mér. En þegar hann var kominn í algjöra einangrun frá slíku tækniundrum nútímans hafði hann bara ekkert annað að gera en læra á jeppann, keyra yfir hraunbreiður og torleiðir og kenna föður sínum á ipod.



Sonurinn í baði á Laugafelli, nálægt miðpunkti Íslands, norðan Hofsjökuls.


Fyrstu nóttina dvöldum við í Kerlingafjöllum. Fórum þaðan í Hveravelli í bað í heitulauginni þar og svo inn í Þjófadali. Þar lærði drengurinn á fjórhjóladrifið og keyra upp snarbrattar brekkur (á vegi náttúrulega). Næstu nótt vorum við í Laugafelli við Sprengisandsleið.


Sólarlag á menningarnótt við Frostastaðavatn. Vorum síðustu nóttina, þ.e. á meðan 100.000 íslendingar voru að skemmta sér á menningarnótt vorum við einu íslensku ferðamennirnir í Landmannalaugum. Sváfum þar í fjallaskála ferðafélagsins eins og allar hinar næturnar. Yndislegt að vera einangraður frá umheiminum.


Á sunnudegi, eftir að hafa farið í bað í lauginni í Landmannalaugum. Gengið svolítið um svæðið og notið litafegurðar fjallana héldum við heim á leið og komum seint og um síðir til Reykjavíkur sælir og ánægðir með ferðina.
Ekki má gleyma að vegna áskoranna sonarins og forvitni um hagi föðursins á hans aldri var gerð lykkja á leið okkar og við brugðum okkur norður í Herðubreiðarlindir þar sem sagðar voru hreystisögur af ungdómsafrekum föðursins.






Sérstakar þakkir: Landsímanum, símanum ogVodafón eru hér með færðar þakkir fyrir að hafa ekki komið á síma- og tölvusambandi á miðhálendið og að enn skuli vera til skikar þar sem hægt er að einangra sig frá slíkum friðþjófum.

2 ummæli:

ærir sagði...

hvað er að póstinum

Nafnlaus sagði...

flott hjá ykkur feðgum.Ég vona að þú hafir sagt honum að hafa samband við frænkur sínar þær geta líka sagt sögur af veru sinni með ykkur í Herðubreiðarlindum, svo liggur líka hjá mér dagbók sem Arna skrifaði og margt hum humm fróðlegt um ungt par skrifað þar.fallegar myndir af fallegum dreng og landslagi, svei mér ef strákurinn er ekki farin að líkjast þér meira og meira. KV sys Smá leiðsögn brotin litlatá er ekki best að festa bara með plástri við næstu tá þetta erfjári vont svar óskast sys