Sumir dagar eru betri en aðrir dagar og aðrir dagar verri en hinir. Í dag var hestadagur. Vaknaði snemma og dreif í mig í hesthúsið. Hafði þar mælt mér mót við höfðingja nokkra. Hafa þeir átt í stríði og bauðst í ég til að veita þeim, þó ekki væri nema með hnullungum og sláturkast. En styrkleika skyldum við sýna og ríða um héraðið svo eftir væri tekið. Ég er nefnilega fluttur. Hef hestana mína í Kópavogi og var varla þangað kominn þegar upp risu deilur illvígar. Helst þótti yfirvöldum ráðlegt að leggja niður hesthúsahverfið. Ég neita að taka það persónulega. Þó nójan sé etv í meira lagi þessa daganna. Allt alsherjarsamsæri.
Það er gott að eiga góða að. Þannig kom áralöng vinátta mín við skógfræðing einn að góðu. Móðir hans skaut nefnilega yfir mig og hestana mína skjólshúsi. Þar dvelja þeir í góðu yfirlæti. Í morgun tókst mér að telja skógfræðinginn á að koma og moka húsið með mér og etv ríða út. Ég mætti tímalega og á réttum tíma enda óstundvísi ómögulegur eiginleiki. Ekkert bólaði á vini mínum og hans fólki. Ég dreif út hesta. Einn neitaði þó að fara út og stóð sem fastast. Hann er 28 vetra og er eini hestur vinar míns, skógfræðingsins. Hann hélt hann fengi tuggu ef hann stæði inni eins og graðhestarnir tveir. En út fóru þeir gröðu líka. Reyndar ekki í sama gerði og merarnar. Það hefði þó verið athyglisvert. Þá vilti Borði gamli út líka. Reyndar þurfti að fylgja honum. Líkt og eðalbornum höfðinga.
En tíminn leið og ekki kom vinur minn. Ég tók nú til og sópaði og mokaði tvær hjólbörur af skít. Það var ágætt starfa. Enda þarf maður stundum að moka sinn eigin skít. En rétt þegar þessu lauk. Þá kom vinur minn og fjölskylda hans. Var ég viss um að skýringin væri að lengi hefði tekið að draga hann á lappir og fjölskyldan hefði þurft að beisla hann og draga með böndum á lappir. Það reyndist ekki vera. Þó ég trúi því mátulega. Hann er nefnilega lítið fyrir hesta. Hann fékk eitt flog þegar hann sá nöguð jólatré í gerðinu og vandaði hrossunum ekki kveðjurnar.
Ég bjóst hálft í hvoru við að hann færi á sinn hest. En þar sem hann er 28 vetra og brúkast bara fyrir börn af léttara taginu þá reyndist það ekki vera. Enda mun síðasta viðureigna húsbónda og hests (sem átt sér stað vel fyrir síðustu aldamót) hafa endað með því að hesturinn nuddaði sér upp við harða snjóruðninga og hafði löpp eigandans á milli svo á sá. Gekk annar þeirra óhaltur frá þeirri viðureign og var það ekki vinur minn.
Ég bauð fram hesta mína, þó af hálfum hug því vinur minn skógfræðingurinn sem ekki er fyrir hesta svona daglig dags, hefur ekki komið á bak lengi. Hvarflaði jafnvel að mér að hann væri skussi í hestamennsku. Hafði því ýmis og sumir myndu segja mörg varnaðarorð um hestana. Hann lét sér þó ekki segjast og þáði stærsta hestinn.
Með okkur kom faðir skógfræðingsins. Lögmaður einn sem flytur mál fyrir hæstarétti og mun hafa tapað fáum. Hann er nú 82 ára og enn að flytja mál. Aðallega gegn ríkinu. Þeir feðgar eru stórættaðir og hestamenn að þeim í marga ættliði. Þar að auki var systir skógfræðingsins mætt. Hún er útskurðarmeistari að iðn. Loftskeytamaður sem sennilega sendi síðasta morse skeytið af landinu áður en Gufunes var lagt niður. Hún er líka húsgagnasmiður að mennt. Svo við vorum vel liðaðir. Sérstaklega var ég ánægður með að hafa hæstaréttarlögmann og loftskeytamann með, sem kann á morslykilinn, afsakið morse lykilinn. Hið fyrrnefnda gæti miskilist, en ég hef aldrei verið sterkur í réttritun. Eiginlega á maður ekki að fara ríðandi af bæ nema með slíkan liðsöfnuð. Amk kennir reynsla mér það, sem eilíflega tekst að koma mér í illdeilur. Það er betra að hafa einhvern með sem getur sótt og varið mál og annan sem kann á mayday-mayday ef maður tapar áttum.
Ferðin var plönuð. Fara skyldi stutt. Aðeins eina götu og niðr á skeiðvöll. Etv nokkra hringi og svo heim. Báru allir umhyggju fyrir aldri hæstaréttarlögmannsins. En þegar af stað var haldið urðu fljótt hindranir á vegi okkar. Var verið að setja ótemju í hestakerru og lét hún illa. Ekki þótti ráð að æsa hesta okkar að óþörfu og því snúið við. Héldu klárarnir að heim skyldi haldið og túrinn stuttur. Lýstu þeir ánægju sinni með svo hóflegan túr. En nýtt plan var snarlega smíðað og farin skyldi efrileið og hringur um efstu götu niður að skeiðvelli. En þegar upp fyrir hesthúsahverfið var komið, tók lögmaðurinn stefnuna út úr því og yfir næsta bílveg og upp í hæðirnar. Hann var á Merru sinni. Hesti sem hann sagði mér síðar, þegar mér loks tókst að ná honum, hefði ekki verið tamin til þess að ríða aftarlega í stóði. Hún mallaði á tölti og skellti sér svo á skeið ef hann aðeins slakaði á taumnum. Hún er hornsfirsk að ætt, sennilega undan að af ætt Hrafns frá Árnanesi.
Við riðum drjúgt, en þó án gassagangs. Vinur minn var ánægður hrossið sem ég hafði sett undir hann. Hann var greinilega fæddur reiðmaður. Ekki eins og ég sem þurfti mörg námskeið, margar byltur, rifbrot og auma skanka á þrautargöngu minni til að geta setið hest skammlaust. Í miðjum hring hafði hann á orði að sér væri varið að leiðast þetta lull. Augljóst var að Merra föður hans var á sama máli enda var fóru þau fjögur að spretta úr spori. Ég var rólegur því klárinn sem vinur minn sat fer yfirleitt ekki langt frá vini sínum sem ég sat. Sá ég hinsvegar á baksvip þeirra feðga að ekki líkaði þeim illa yfirferðin.
Þegar við vorum nokkuð áleiðis í hringnum, var afleggjari sem lá upp að Vífilsstaðavatni og vildi faðir vinar míns endilega fara þá leið og þurfti nokkur strangar fortölur til að telja hann af því. Enda drjúgur spölur. En þegar við vorum kominn nokkuð lengra og farið að hylla undir heimreiðina, þá kom annar afleggjari. Að svokölluðm kikjugarðshring. Nú var ekki látið laust né fast. Hæstaréttarlögmaðurinn var ákveðinn. Og hann réði för. Við fórum annan hring og var sem hann væri óstöðvandi á Merru sem fór á skeiði. Vinur minn skógfræðingurinn fylgdi föður sínum fast á eftir. Úr þessu varð því bæði ágætur reiðtúr, nokkuð lengri en áætlað hafði verið, og hinn besti félagskapur.
Heima í húsi fengum við kaffi og kakó. Síðan drifum við félagarnir okkur í bæinn. En við höfum haft þann sið (reyndar ekki fastan) að borða saman í hádeginu á laugardögum. Við fórum því, einsog eins sinni áður á Sægreifann. Þar fengum við hina heimsfrægu fiskisúpu í forrétt og grillað fiskispjót. Hann fékk sér blálöngu og ræddi um atferli þess undarlega fisk við vertinn. 'Eg fékk skötusel. Allt á svo litlar sem 1400 kr. Ekki gerast betri kaup í bænum. Og ekki betra resturant finnst þar heldur.
En dagskráin var stíf í dag. Eftir skraf um landsins gagn og nauðsynjar á Sægreifanum. Beið mín sonur sæll, sem hafði dvalið á Ara í Ögri heldur lengi sl nótt,sofandi heima. Kominn var tími á reiðnámskeið okkar feðganna. Fórum við saman á ný í hesthúsið og lagt var á í annað sinn í dag. Saman riðum við svo í gerði nokkru neðst í hverfinu. Gekk það sem í sögu. Stráksi að ná þessu býsna vel. Við riðum síðan heim í hús, eftir taumæfingar, volta, fetgang, slöngulínur og gangsetningaæfingar.
Þessi laugardagur var ekki sem verstur.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Þetta var góð lýsing á skógfræðingnum okkar. Það lifir greinilega ennþá í keppnisglæðunum sem aðrir tveir vinir eru þekktir fyrir en skógfræðingurinn alls ekki saklaus af. Að vera aftastur er ekki á dagskránni frekar forðum tíð.
k
amk ekki ef fornar dyggðir geta ráðið för og barist er að hætti grikkja og rómverja. hnullungakast að hætti víkinga er ekki síðra sport skilst mér.
Skrifa ummæli