Ég hef lítið hugsað upphátt sl. vikur. Fyrir því eru margar ástæður. En margt hefur gerst sem er minnisvert og á heima í dagbókinni.
Fyrst er að telja að ég fylgdi einum besta vini mínum til grafar í síðustu viku. Aðeins 43 ára gömlum. Við vorum mikið saman í hestum. Deildum hesthúsi í 6 eða 7 ár. Höfðum ferðast víðsvegar um landið á hestbaki. Farið í sleppitúra. Hann útvegaði mér bestu hestana mína. Hann tamdi þá sjálfur. Saman áttum við skemmtilegar ferðir norður í Skagafjörð í Laufskálarétt, þar kenndi hann mér að lesa í fótaburð efnilegra tryppa. Á Þingvöllum drukkum við bjór og sögðum sögur af ævintýrum dagsins. Upp við Stöng biðum við spenntir eftir að sjá hvort færi gæfist á að ríða yfir Nautavað í Þjórsá. Að Fjallabaki þeystum við um grundir. Á Löngufjörum sundriðum við ála og sprettum úr spori. Í jarðarför hans var flutt ljóð Davíðs Stefánssonar. Þar var sungið:
Ég heyri álengdar hófadyninn,
ég horfi langt á eftir þér.
Það var við hæfi. Þannig líður mér. Blessuð sé minning Ólafs Eiðs Ólafssonar.