27. febrúar 2009

Kína


Í dag fékk ég þesa mynd senda frá synininum. Á góðar minningar frá Kína sl. sumar.

11. febrúar 2009

Operation krúttmagar

Tókst að verða mér úti um kúttmaga í gær. Mér þótti þetta hnossgæti hér áður fyrr, en hef ekki fengið í mörg ár. Helst er að nálgast þetta með að kaupa sig inn á kúttmagakvöld íþrótta- eða góðgerðarfélaga en þangað er ekki öllum boðið. Því fagnaði ég því heilshugar þegar mér áskotnaðist 1 kg af kúttmögum. Í gær var ég að hreinsa þá og setti í saltvatn í nótt og í dag ætla ég með systur minni að fylla þá og halda veislu.

9. febrúar 2009

Óli

Ég hef lítið hugsað upphátt sl. vikur. Fyrir því eru margar ástæður. En margt hefur gerst sem er minnisvert og á heima í dagbókinni.

Fyrst er að telja að ég fylgdi einum besta vini mínum til grafar í síðustu viku. Aðeins 43 ára gömlum. Við vorum mikið saman í hestum. Deildum hesthúsi í 6 eða 7 ár. Höfðum ferðast víðsvegar um landið á hestbaki. Farið í sleppitúra. Hann útvegaði mér bestu hestana mína. Hann tamdi þá sjálfur. Saman áttum við skemmtilegar ferðir norður í Skagafjörð í Laufskálarétt, þar kenndi hann mér að lesa í fótaburð efnilegra tryppa. Á Þingvöllum drukkum við bjór og sögðum sögur af ævintýrum dagsins. Upp við Stöng biðum við spenntir eftir að sjá hvort færi gæfist á að ríða yfir Nautavað í Þjórsá. Að Fjallabaki þeystum við um grundir. Á Löngufjörum sundriðum við ála og sprettum úr spori. Í jarðarför hans var flutt ljóð Davíðs Stefánssonar. Þar var sungið:
Ég heyri álengdar hófadyninn,
ég horfi langt á eftir þér.

Það var við hæfi. Þannig líður mér. Blessuð sé minning Ólafs Eiðs Ólafssonar.