
Það verður þeim sem villast úti á hjarni
í vetrarmyrkri, fjarri húsi og arni,
að deila um áttir, dreifa sér og týnast,
á Dimmufjöllum hverfur einn í senn.
Guðmundur Böðvarsson, Landvísur 1963. Upphaf ljóðsins Brot.
Þegar hirðinginn fellir sinn hest
þá er hugur hans reikull og kvíðinn,
þvílíkt sem áttvilltum ógni
öræfaskuggar um kvöld,
þvílkt sem sorglegan söng
syngi vindar á hausti
út yfir hjarðlausa afrétt
eftir seinustu leit.
Þegar hirðinginn fellir sinn hest
þá er hjarta hans söknuði fyllt,
eins og að aldrei framar
blikandi föx
beri við loft,
eins og að aldrei framar
einstakt kallandi hnegg
víðlendur veki af svefni
vorbjarta nótt.