8. nóvember 2009

Osso Bucco et Risotto Milanese cum Gremolata

Ég vaknaði í morgun og fann að hurðin á frystinum hafði ekki lokast. Skollin var á ísöld með klakabrynju því blessaður skápurinn brást við með því að keyra mótorinn á fullu. En eitthvað hafði þiðnað.

Fann þar nautaskanka sem biðu góðs tíma, en þeirra tími er augljóslega kominn. Hafði áður eldað osso bucco eftir uppskrift frá ágætum netkonum, sem því miður setja ekki lengur uppskriftir á vefinn nema endrum og eins núorðið. Til að eiga þett sjálfur hef ég stolist til að afrita uppskriftina þeirra hér.

Í kvöld, á feðra daginn verður semsagt notalegir nautaskankar norðurítalíu á boðstólum fyrir ómegðina mína.

Ég gef uppskriftinni orðið:

"Þessi réttur er afskaplega gestaboðsvænn, þar sem öll vinnan við hann getur farið fram löngu fyrir boðið.

(fyrir fjóra)

4 sneiðar nautsskankar (osso buco kjöt, fæst oftast í Nóatúni)
salt og pipar
25 g ólífuolía eða smjör
500 g tómatar, mega vera úr dós (nota alltaf dósatómata, ekkert síðra)
3 dl þurrt hvítvín
1 tsk þurrkað marjoram eða 1 msk ferskt
um 1 dl vatn (má sleppa, ef safinn af dósatómötum er notaður)

Kryddvöndull:
1 búnt steinselja
kvistur af timjani
1 lárviðarlauf

Skerið aðeins inn í ytra borð sneiðanna á 1-2 stöðum svo þær myndi ekki skál þegar þær steikjast. Hitið smjörið eða olíuna í stórum potti og brúnið sneiðarnar á báðum hliðum. Hellið helmingnum af hvítvíninu yfir og látið sjóða án loks í um 5 mínútur.

Ef notaðir eru nýir tómatar þarf að afhýða þá og hakka, annars bara hakka. Má hella safanum af dósatómötum, ég geri það samt aldrei. Bindið saman steinselju, timjan og lárviðarlauf fyrir kryddvöndulinn.

Setjið tómata, salt, pipar, marjoram, afganginn af hvítvíninu, vatn og kryddvöndul út í pottinn. Látið sjóða við vægan hita í 3 1/2 - 4 klukkustundir. Ef notaðir eru kálfaskankar þarf ekki nema um 1 1/2 tíma. Kjötið á að hrynja af beinunum.

Risotto milanese:

1 lítill laukur
1 msk smjör
300 g arboriogrjón eða önnur risottovæn hrísgrjón
um 600 ml gott soð (helst ekki af teningi)
Klípa af saffrani, steytt vel
3-4 msk nýrifinn parmaostur
meira smjör
salt
pipar

Hakkið laukinn frekar fínt og steikið 2-3 mínútur á víðri pönnu í smjörinu. Laukurinn á ekki að brúnast. Setjið grjónin saman við og hrærið þar til þau eru þakin feiti. Kryddið með salti og pipar.

Hafið soðið nálægt suðupunkti við hlið pönnunnar. Hellið 1/2-1 ausu í einu út á grjónin, hrærið nær stanslaust. Kryddið með saffraninu. Ekki á að setja meira soð fyrr en grjónin eru farin að æpa úr þurrki. Þetta tekur um 20-25 mínútur. Nauðsynlegt að hafa glas af hvítvíni við höndina. (til að drekka, sko, ekki hella út á, neitt...)

Þegar grjónin eru orðin mjúk, er parmaostinum og smjörinu hrært saman við.

Ef vill má hætta að ausa soði aðeins áður en grjónin eru orðin mjúk, setja lok á pönnuna og slökkva undir. Hræra síðan parmaostinum og smjörinu saman við og hita rísottóið upp þegar á að bera það fram.


Gremolata:

1-2 hvítlauksrif
1 búnt steinselja
rifinn börkur af einni sítrónu (helst lífvænt ræktaðri)

Hakkið steinseljuna, pressið hvítlaukinn og blandið saman, ásamt sítrónuberkinum".